05.03.1947
Neðri deild: 86. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (2932)

92. mál, tannlækningar

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Það eru aðeins örfá orð út af þessu máli, áður en gengið verður til úrskurðar um það.

Þannig er ástatt í löggjöfinni um þetta efni, að meginreglan er sú, að öllum öðrum en tannlæknum og þeim, sem tannlækningaleyfi hafa, er óheimilt að setja gervitennur og tanngarða í menn. Það stendur „setja“, en ekki „smíða“, en undanþága hefur verið gefin frá þessu, af því að ekki hafa orðið nógu margir til að afla sér sérþekkingar í þessari grein. Það hefur verið heimilað mönnum, sem hafa stundað tannsmíðanám, að setja, ekki smíða, heldur setja tennur í menn í samráði við héraðslækni, ef hlutaðeigandi hérað er tannlæknislaust. Nú er farið fram á að breyta þessu, fyrst af hv. flm., þannig að þessi undanþága að setja gervitennur og tanngarða í menn skuli haldast, þótt tannlæknir komi á staðinn, og af hendi minni hl. n. er þó einvörðungu farið fram á, að þetta skuli gilda áfram fyrir þá menn, sem nú þegar hafa fengið slíka undanþáguheimild.

Eftir því sem ég hef getað kynnt mér þetta. mál, tel ég óhyggilegt að breyta um þá stefnu, sem verið hefur, að aðeins þeir megi stunda þessi læknisstörf, sem hafa aflað sér til þess nægrar sérþekkingar. Þar af leiðandi álít ég ekki skynsamlegt að samþ. það frv., sem hér liggur fyrir. Hins vegar sýnist mér, af því að ég hef orðið var við í viðtölum um þetta mál við fulltrúa frá félagi tannsmiða og enn fremur landlækni o. fl., sem hafa látið þetta mál sig skipta, að þörf sé endurskoðunar á gildandi löggjöf um verkaskiptingu milli tannlækna og tannsmiða og að setja gleggri reglur um tannsmíðanám. Ég hefði því vel getað fallizt á, að málið væri afgr. með þeirri rökst. dagskrá, sem meiri hl. n. hefur lagt fram, en teldi þó heppilegra, að málið verði afgr. sem l. á þá lund, sem hv. 7. þm. Reykv. leggur til, og með þeirri breyt. þar ár sem meiri hl. heilbr.- og félmn. leggur til á þskj. 428, m. ö. o., að meginstefnan verði alveg eins og verið hefur, að ekki verði veitt undanþága fyrir tannsmiði til að starfa sjálfstætt, þar sem tannlæknir sezt að, en þó verði sett það ákvæði í l., að tannsmiðir, sem hafa starfað, áður en tannlæknir kom, hafi rétt til að ganga fyrir öðrum hjá tannlækni, sem kemur, um starf í samráði við hann. Og til frekari tryggingar því, að tannsmiðum verði settir eðlilegir kostir í sambandi við þessa samvinnu, komi þetta ákvæði, að geti tannlæknir ekki gengið að þeim kjörum, sem heilbrigðisstj. telur hæfileg, þá falli leyfið ekki úr gildi, m. ö. o., að heilbrigðisstj. geti framlengt leyfi tannsmiða til að vinna sjálfstætt, þó að tannlæknir komi, ef tannsmiður getur ekki komizt að þeim kjörum við hann, sem heilbrigðisstj. telur hæfileg í samvinnu við tannlækninn, en mér skilst, að það sé rétt að tala um samvinnu, því að það er alls ekki gefið mál, að tannsmiður þurfi að vera í þjónustu tannlæknis, heldur samvinna þannig, að tannlæknir vísar mönnum til tannsmiðsins, því að það er sérstakt að taka tennur og annað að láta aðrar koma í staðinn, og við það verða tannlæknir og tannsmiður að hjálpast að.

Nú mætti spyrja, hvað menn sjái á móti því að framlengja rétt þann, sem þessir fáu menn hafa fengið, og hvort það mætti ekki eins afgr. málið þannig, eins og minni hl. n. leggur til, að láta þessa tannsmiði hafa sérstakan rétt. Í því sambandi vil ég aðeins taka fram sem rök gegn því, að rétt sé nú að ganga inn á þá braut að veita þessum mönnum undanþágu eða auka rétt þeirra frá því, sem nú er í gildandi l., á því starfsleyfi, sem þeir hafa, að þá er hætt við því, að eftir nokkurn tíma kæmu menn, sem vildu einnig fá þennan rétt, og þá væri ákaflega erfitt að draga þar línu, svo að skynsamlegt væri og réttlátt. Þess vegna teldi ég ekki skynsamlegt að ganga inn á að auka þessi réttindi eða breyta um stefnu frá því, sem er í gildandi löggjöf, heldur eigi að setja í staðinn ákvæði, sem ættu að tryggja samvinnu milli tannlækna og tannsmiða, sem gæti orðið fullnægjandi fyrir báða aðila, og heilbrigðisstj. gæti þá framlengt leyfið, ef eðlilegir samningar takast ekki.

Að lokum vil ég aðeins benda á út af því, sem hér hefur komið fram, að mér skilst, að hjá n. sé ekki um að ræða ágreining um prinsippið, hver meginreglan skuli vera, vegna þess að minni hl. gerir í brtt. sinni ráð fyrir, að þessi undanþága verði veitt aðeins fyrir takmarkaðan hóp, þ. e. a. s. að það er enginn ágreiningur hjá n. að halda þeirri meginreglu, sem verið hefur. Og þá er spurningin, hvort sé knýjandi nauðsyn til að gera þá undanþágu, sem gæti orðið varhugavert fordæmi síðar. Ég vil mega vona, að ef till. hv. 7. þm. Reykv. með viðauka frá meiri hl. n. verður samþ., þá verði sú ástæða, sem menn kynnu að hafa til þess að veita undanþágu, brott fallin, og þau ákvæði mundu reynast nægileg til að tryggja afstöðu þeirra tannsmiða, sem hlut eiga að máli.

Að lokum skal ég taka fram, að aðalatriðið er að fjölga tannlæknum, því að takmarkið er ekki, að fólk fái nýjar tennur, heldur að halda sínum upprunalegu tönnum. Þrátt fyrir þetta er starfsemi tannsmiða mjög nauðsynleg, og verður að ætla þeim eðlilegt starfssvið og hæfileg kjör, og um það þarf gleggri ákvæði í löggjöf, og ég geri ráð fyrir, að heilbrigðisstj. muni vinna að, að betri skipun komist á það og það sem fyrst.