05.03.1947
Neðri deild: 86. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (2934)

92. mál, tannlækningar

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Með flm. minn, hv. 5. þm. Reykv., hefur hér lýst að nokkru afstöðu okkar til þessa máls, eins og það nú stendur, og ég þarf ekki miklu við það að bæta öðru en því að svara nokkrum aths., sem fram hafa komið frá hv. menntmrh. og 4. þm. Reykv. Síðan málið var síðast til umr., hafa komið fram tvær brtt., önnur frá hv. 7. þm. Reykv. á þskj. 461, og hin frá meiri hl. heilbr.- og félmn. á þskj. 484. Út af fyrri brtt. skal ég aðeins segja það, að málið er með samþykkt þeirrar till. fært svo að segja nákvæmlega í það horf, sem það nú er í. Í brtt. felst mjög lítil breyt., engin önnur en sú, að þeir tannsmiðir, sem verða fyrir því óláni, að tannlæknir setjist að í þeim umdæmum, sem þeir eru starfandi í, þeir eiga að fá nokkurs konar forgangsrétt til þess að starfa hjá tannlæknunum við tannsmíðar. Munurinn á núgildandi l. um þetta efni og þeim breyt., sem hv. 7. þm. Reykv. flytur till. um, er þessi eini — eða ég sé ekki annað. Þetta er svo nokkuð aukið með brtt. á þskj. 482, sem er brtt. frá meiri hl. heilbr.- og félmn. Þar stendur, að tannsmiður eigi rétt á að ganga fyrir öðrum um atvinnu við tannsmíðar fyrir þennan tannlækni. Veiti hann tannsmiðnum ekki kost á þeim kjörum, sem heilbrigðisstj. telur hæfileg, fellur leyfið ekki úr gildi. — Ég tel báðar þessar brtt. óaðgengilegar fyrir okkur flm. frv., því að þær bæta að litlu eða engu úr því misrétti, sem hér gildir. Ég ætla að þessi forgangsréttur 7. þm. Reykv. verði í reyndinni mjög lítils virði, því að þarna er allt lagt á vald hlutaðeigandi tannlæknis, en ekkert annað á vald tannsmiðsins sjálfs en sætta sig við þau kjör, sem tannlæknirinn kann að skammta honum, og kemur það fyrirkomulag að mínu viti ekki til mála. Um hitt atriðið, að heilbrigðisstj. eigi að vera nokkurs konar gerðardómur fyrir tannsmiðinn, það tel ég mjög hæpna ráðstöfun, og ég efast um, að tannsmiðir, a. m. k. nú, beri það traust til heilbrigðisstj., að þeir vilji sætta sig við þann gerðardóm. Báðar þessar brtt. tel ég ganga svo skammt til úrbóta á þessum misrétti, sem hér ríkir, að þær séu alveg óviðunandi fyrir okkur flm. og nái ekki þeim tilgangi, sem við ætluðumst til, að náð væri með flutningi frv. Hv. menntm.- og heilbrmrh. talaði um þessar brtt., en var í ræðu sinni óvenju óskýr að mér fannst. Hann sagði, að að vísu væri bannað með lögum, að tannsmiðir settu tennur í menn, en þeim væri ekki bannað að smíða þær sjálfstætt. Hann taldi, að hér ætti að tala um samvinnu milli tannsmiðs og tannlæknis en ekki þjónustu, og í samræmi við þetta er brtt. heilbr.- og félmn. orðuð á þá leið, að tannsmiður einn skuli eiga rétt á að ganga fyrir öðrum um atvinnu við tannsmíðar fyrir þann og þann tannlækni. Þetta er mjög svo óákveðið orðalag, og má sjálfsagt teygja það og toga, en niðurstaðan af því er að mínu áliti sú, að tannsmiður geti ekki átt neitt undir þessu ákvæði. Það verður allt á valdi þess, sem dóminn á að fella, sem sagt heilbrigðisstj., um kjör tannsmiðs, og býst ég við, að tannsmiðir séu ekki spenntir fyrir því.

Út af ræðu hv. 4. þm. Reykv. skal ég einnig segja nokkur orð. Hann kvað það misskilning á eðli málsins hjá okkur flm., þegar við héldum því fram, að þetta væri réttlætismál 3–4 manna og hagsmunamál tannlækna. Hins vegar vildi hann endurtaka spurningu um það, hvort leyfa ætti tannsmið sjálfstætt starf, ef tannlæknir hefði setzt niður í umdæmi hans, og hvort þeir ættu að fá að starfa samtímis að tannsmíðum. Hér þarf enginn misskilningur að vera. Ég tel, að um hvort tveggja sé að ræða. Hér er ágreiningur um, hvort tannsmiður og tannlæknir eigi að fá að starfa sjálfstætt samtímis og hvort bæta eigi þann órétt, sem ég og meðflm. teljum, að viss stétt hafi orðið fyrir, þegar tannlækningalögunum var breytt árið 1932. Það hefur ekki heldur verið véfengt, að hér væri um hagsmunamál tannlækna að ræða. Ég álít — alveg eins og meðflm. minn, 5. þm. Reykv., vék að áðan —, að það sé a. m. k. eitt af kjarnaatriðum málsins. Sannleikurinn er sá, að þótt tannsmið verði bannað að starfa sjálfstætt, eftir að tannlæknir hefur setzt að í héraðinu, þá verður það ekki til þess, að tannlæknirinn smíði tennurnar sjálfur. Þvert á móti. Hann fær til þess eitthvað allsendis óvant fólk, fólk, sem er alveg ólært í þessum efnum, og hefur það sér til aðstoðar við tannsmíðina. Ég held, að það sé í fáum tilfellum, að tannlæknirinn inni þetta starf af hendi sjálfur eða fagmenn undir hans stjórn. Ég sé lítinn mun á því, hvort tannsmiðurinn, sem af heilbrigðisstj. hefur verið talinn hæfur til þess að vinna sjálfstætt í tannlæknislausu héraði, starfar að þessu sjálfstætt áfram eða hvort hann vinnur að því undir stjórn tannlæknis, og ég sé ekki, að almenningur hafi í því tilfelli tryggingu fyrir betri vinnu hjá þessum aðilja heldur en þótt hann ynni sjálfstætt. Í öðru tilfellinu vinnur tannsmiðurinn undir stjórn og fyrir ákveðið kaup hjá tannlækni. Í hinu undir eigin stjórn og á eigin ábyrgð, og eins og ég hef áður sagt, þá býst ég ekki við, að munur á vinnugæðum yrði mikill. Spurningin er aðeins sú, hvor hafi hagnaðinn.

Hv. 4. þm. Reykv. virtist leggja dálítið annan skilning í frv. þetta en ég hafði búizt við. Með því formi, sem hér er á komið með brtt. minni hl. n., sem við flm. höfum tjáð okkur samþykka, þá er hér gert ráð fyrir bráðabirgðaákvæði, og það er einungis ætlazt til þess, að lög þessi gildi, þar til sett hafa verið um þetta lög og ákveðnar reglur um nám og réttindi þessara tannsmiða, en bæði meiri og minni hluti n. er því samþykkur, að settar verði reglur um þetta atriði. Það er því ætlazt til þess, að ákvæði þessi gildi, þangað til þessar reglur verða lögfestar, en það er á valdi þeirra, sem semja þær, hversu fljótt það verður gert. Það er því að öllum líkindum aðeins um stutt tímabil að ræða, þangað til þessar reglur koma til framkvæmda. Hv. 4. þm. Reykv. var með hálfgerða hótun frá landlækni um það, að hann mundi, ef Alþ. hefði aðra skoðun á þessu máli en hann sjálfur, ekki sjá sér fært að veita tannsmiðum fleiri leyfi til að praktisera sjálfstætt úti á landi. Ég er ekki að véfengja það, að hv. 4. þm. Reykv. hafi þetta rétt eftir landlækni, enda hefur hann aðstöðu til þess að fá fyrstu handar upplýsingar hjá honum, en ég verð að segja það, að mér finnst það hart, ef landlæknir hefur látið sér þessi orð um munn fara, því að í þeim liggur eins konar hótun um refsiaðgerðir í sambandi við það, sem gerist á Alþ. Ætli landlæknir að taka upp refsipólitík til þess að koma fram vilja sínum gegn vilja Alþ., þá verður Alþ. sennilega að grípa til sinna gagnráðstafana.

Þá sagði hv. 4. þm. Reykv. það, að ýmislegt væri sameiginlegt með tannlækni og augnlækni, eða a. m. k. ætti að vera það. Augnlæknar rannsökuðu augun og gæfu svo resept fyrir gleraugnaslípara til þess að gera gleraugun eftir, og þannig skildist mér, að 4. þm. Reykv. hugsaði sér einnig fyrirkomulagið með tannsmíði. Ég er að vissu leyti sammála hv. þm. um þetta. Ég held samt, að verk tannlækna sé fyrst og fremst að gera við tennur og draga úr tennur, en þegar tennur hafa verið dregnar úr manni, þá ætti, eftir því sem hv. 4. þm. Reykv. heldur fram, að gefa manninum resept til tannsmiðs upp á nýjan tanngarð. Ég skil satt að segja ekki, hvernig það má verða. Ég hygg, að bezt sé, að maðurinn fari sjálfur til tannsmiðsins, eftir að dregið hefur verið úr honum, og sýni honum sig og fái hann svo til þess að smíða í sig tennur. Mér virðist nákvæmlega sama sambandið milli þessara aðilja, tannsmiðs og tannlæknis og augnlæknis og gleraugnaslípara, að því fráskildu, að ég álít, að ekki sé gott að gefa resept upp á tennur. Hv. 4. þm. Reykv. gat þess, að mál þetta væri sótt með hinu mesta offorsi og kappi. Ég vildi leyfa mér að halda því fram, að ef um kapp er að ræða hjá einhverjum, þá sé það hjá þeim, sem vilja málið feigt. Mér finnst ósanngjarnt að hrekja hæfan og æfðan mann frá starfi, til þess að fá það í hendur manni, sem lætur svo einhvern ólærðan og óvanan mann inna það af hendi. Þetta finnst mér vera réttlætismál fyrir tannsmiðina. Mér virðist þó ekki rétt að veita fleiri leyfi, fyrr en búið er að setja fastar reglur og lög um starfsemi tannsmiða, en hve fljótt það verður, er á valdi heilbrigðisstj., og hygg ég, að hún geti staðið á móti öllum leyfisveitingum, meðan verið er að ganga endanlega frá málinu.

Hv. 4. þm. Reykv. lauk máli sínu með því að segja, að sér fyndist, að með brtt. á þskj. 482 frá meiri hl. heilbr.- og félmn., þar sem gert er ráð fyrir, að tannsmiðum sé gefinn kostur á starfi hjá tannlæknum — með nokkurskonar gerðardómi heilbrigðisstj. um kaup og kjör —, þá væri þetta eiginlega allt, sem hægt væri að fara fram á fyrir hönd tannsmiða, því að hann sagði: „Meiri sanngirni finnst mér tannsmiðir ekki eiga rétt á.“ Það getur verið, að þeir eigi ekki rétt á meiri sanngirni, en ég spyr bara : Hvers vegna ekki?