10.04.1947
Efri deild: 112. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

221. mál, bifreiðaskattur

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég hreyfði því aðeins í umr. í dag, að í fljótu bragði áliti ég, að jepparnir ættu ekki að falla undir þetta. Ég útskýrði það ekkert nánar, og um það urðu nokkrar umræður. En ég verð að segja það. að ég áleit vafasamt, hvort jepparnir heyrðu undir þennan lið þrátt fyrir skýringu hæstv. ráðh., því að það er svo, að vafasamt er, hvort þeir eru aðallega gerðir til fólksflutninga. en hér er talað um, til hvers bifreiðin sé gerð. Á hinn bóginn fannst mér þetta ekki svo mikils vert atriði, að ég hugsaði mér að bera fram brtt. út af því. Ég gæti hugsað mér, að það yrði úrskurðarmál eða dómsmál á sínum tíma og dómarinn skæri þá úr, hvort jepparnir heyrðu undir þetta eða ekki, og sé ekki annað en óhætt sé að láta orðalag frv. skera úr um þetta að áliti dómara. Ég verð að vera ráðh. sammála um það, að erfitt mun að flokka bifreiðarnar eftir því, hvernig þær eru skráðar. Mér skilst, að þær séu skráðar eftir því, hvernig eigandi óskar sjálfur, að þær séu skráðar, og það er vafasamt, hvort þægilegra væri að framkvæma lögin með brtt. hv. 3. landsk. Ef brtt. þessi ætti að undanskilja jeppana, þá væri betra að hafa orðalagið eins og hv. 3. landsk. lagði til í fyrstu, að á eftir orðinu „gerðar“ komi: og notaðar til fólksflutninga. Það yrði að vísu matsatriði, sem sýslumenn yrðu að ákveða um hverja jeppabifreið, en það er þó frambærilegra en láta skráninguna ráða, því að bifreið, sem skráð er til fólksflutninga í ár, er kannske seld öðrum, sem notar hana til alls annar. Ég býst því ekki við að geta greitt atkv. með brtt. hv. 3. landsk., eins og hún liggur nú fyrir, en væri hún hins vegar svo sem í fyrstu, þá væri nær, að ég væri með henni, því að það er einfaldara í framkvæmd. Hins vegar er þetta ekki stórmál. En það er nú svo, að ýmsar jeppabifreiðir eru litið notaðar til annars en sem landbúnaðarverkfæri. Ég þekki ýmsa bændur, sem hafa fengið jeppa sér til hægðarauka við alls konar landbúnaðarstörf, en nota þá lítið til fólksflutninga, þó að þeir bregði sér á þeim bæjarleið og lofi þá kunningjum sínum að sitja í með sér.

Ég vil nú beina því til hv. 3. landsk. hvort hann vildi ekki breyta till. sinni, eins og hún var fyrst, og býst ég þá við að greiða till. hans atkv.

Hér hefur verið rætt um það, að rangt sé að skattleggja ekki lúxusbifreiðar meir, en aðrar. Ég er því sammála, ef einhver gæti skilgreint fyrir mér, hvað væru lúxusbifreiðar og hvað ekki, þá mundi ég samþykkja slíka till. Fyrir nokkrum árum hafði Sósfl. á stefnuskrá sinni slíkan skatt, en ég skildi aldrei, við hvað væri átt með því. Mér finnst það ætti þá að ráða, hvort bifreiðin væri fínt útbúin, en um það hygg ég sé enginn munur á einkabifreið eða leigubifreið. Ég fæ heldur ekki séð, að það sé meiri „lúxus“ að eiga bíl en leigja hann. Ég sé ekki, hvort er meiri „lúxus“ að fara í ferðalag í einkabíl eða leigubíl. Ég hef nú aldrei getað eignazt bíl, en ég hef farið í lúxusferðalag í leigubíl, og lúxusferðalag kalla ég það að fara í skemmtiferðalag, og ég sé nú ekki, að það sé meiri „lúxus“ að eiga bifreiðina sjálfur, og spursmál, hvort er dýrara, og það er nú talinn mesti „lúxusinn“, sem dýrast er. En ef hægt væri að gefa mér fullnaðarskýringu á því, hvað lúxusbifreið er, mundi ég greiða atkv. með því að skattleggja þær meira, en þær skýringar hef ég ekki fengið enn þá.

Mér datt nú í hug að flytja brtt. við brtt. hv. 3. landsk. og kvaddi mér hljóðs, meðan ég var að hugsa um það. En við nánari athugun fannst mér það ekki þess vert að tefja frv. með því, en mundi taka undir við hann, ef hann breytti sinni brtt.