16.05.1947
Efri deild: 133. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (2949)

92. mál, tannlækningar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. n. hefur tekið fram, erum við, hv. 4. landsk. þm. (BrB) og ég, með örlitlar brtt. við þetta mál.

Það er öllum kunnugt, að tannlæknar hafa miklu hlutverki að gegna í heilbrigðisþjónustu þessarar þjóðar, og er þess full þörf, að þeir væru miklu fleiri en þeir nú eru. Standa sakir þannig nú í þessum efnum, að ekki er starfandi tannlæknir í Vestmannaeyjakaupstað og sá tannlæknir, sem hefur undanfarið starfað á Ísafirði, mun vera á förum þaðan, og mun standa til, að hann flytji til Reykjavíkur og taki hér upp tannlækningar. Ef frv. væri samþ. óbreytt, gæti svo farið, að þeir tannsmiðir, sem nú hafa leyfi til að starfa sem slíkir, settu sig niður í þessa allstóru kaupstaði eða aðra, þar sem ekki væru starfandi tannlæknar, og byrjuðu þar að starfa á sínu sviði. Þetta gæti orðið til þess, að miklu síður fengjust tannlæknar til að setja sig niður í þessa sömu kaupstaði, og teldi ég það illa farið. — Það er að vísu ágætt, að þeir geti átt þess kost, sem tannsjúkir eru, að úr þeim sé dregið og í þá settar gervitennur, en hitt hefur þó miklu meir í heilbrigðislega þýðingu, að tannlæknar séu við höndina, er geti gert við þær tennur í fólki, sem sýkjast. Einkanlega skiptir það miklu máli, að tannlæknar geri við sýktar tennur í börnum og unglingum, þar eð slíkt hefur mjög viðtæka heilbrigðislega þýðingu fyrir hina upprennandi kynslóð og fyrir þjóðina í heild. — Ég tel því, að hv. Alþ. beri að ganga svo frá þessu máli, að loku verði fyrir það skotið, að þeir kaupstaðir, sem nú eru án tannlækna, verði fyrir því, að þar setji sig niður menn með takmarkaða menntun á þessu sviði, sem sé tannsmiðir, og að þangað væri svo ekki hægt að fá tannlækna, vegna þess að þeir þyrðu ekki að setja sig þar niður, þar eð tannsmiðir væru þar fyrir. Þetta tel ég hægt að leysa á sómasamlegan hátt með þeirri brtt., sem hv. 4. landsk þm. og ég flytjum. Er hún á þá leið, að nýr setningarhluti bætist inn í 1. gr. frv., og mundi þá gr. hljóða á þessa leið — með leyfi hæstv. forseta : „Öllum öðrum en tannlæknum eða þeim, sem tannlækningaleyfi hafa, er óheimilt að setja gervitennur og tanngarða í menn. Þetta nær þó ekki til lækna, ef þeir sanna heilbrigðisstjórninni, að þeir hafi aflað sér nægilegrar þekkingar í þessari grein, og ekki til þeirra tannsmiða, er þegar hafa fengið leyfi til að starfa sjálfstætt, enda haldi þeir þá þessu leyfi fyrst um sinn,“ — en síðan bætist inn samkvæmt brtt. okkar á þskj. 834: „á þeim stöðum, sem þeir nú starfa“ — og loks lýkur setningunni þannig : „þar til ákvæði verða sett í lögum um réttindi þeirra og skyldur.“

Ég hygg, að málið verði sómasamlega leyst fyrir báða aðila með þessum hætti, enda hefur hv. 2. þm. Eyf. (GÞ) tjáð mér munnlega, að hann sætti sig mjög vel við þá brtt., sem hér um ræðir, og teldi málið sómasamlega leyst, þótt hún yrði samþ., en eins og hv. þm. er kunnugt, hefur hann lagt allmikið kapp á, að málið fengist afgreitt á þessu þ. — Ég tel, að taka beri tillit til þess, sem ég hef hér gert grein fyrir,, að því er snertir hina stærri kaupstaði, og sízt kostar það neitt, þar sem vitað er, að málið leysist á fullnægjandi hátt fyrir þá starfsmenn, sem hér er um að ræða, sérstaklega þann eina, sem málið er flutt fyrir inn á þing, sem sé þann tannsmið, sem búsettur er og starfar í Hafnarfirði. — Ég held því, að þessi lausn málsins sé sú rétta, þótt hún sé að vísu bráðabirgðaúrlausn, en að endanleg lausn fáist, eins og tekið er fram í frv., þegar ákvæði verða sett í l. um réttindi tannsmiða og skyldur. — Ég hygg, að það geti ekki verið tilgangur þeirra, sem að þessum breyt. standa, að þær yrðu til þess, að Vestmannaeyjakaupstaður og Ísafjarðarkaupstaður fengju aðeins einn tannsmið og ættu ekki kost á að fá tannlækna til þess að annast tannlækningar fyrir viðkomandi bæjarfélag, og þess vegna hljóta þeir, sem vilja bæta úr réttindaskorti tannsmiða, að telja, að málið sé sómasamlega leyst með þeirri viðbót eða úrbót, sem við leggjum til, að verði bætt inn í lagagreinina.