10.04.1947
Efri deild: 112. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

221. mál, bifreiðaskattur

Eiríkur Einarsson:

Ég tel það liggja alveg ljóst fyrir, að sá skilningur, sem hafður er á orðalagi þessarar greinar, geti orkað tvímælis, hvort bifreið er aðallega notuð til fólksflutninga eða ekki, fer eftir skilningi og sanngirni þeirra, sem með fara. Ég tel samt sem áður. að brtt. hv. 3. landsk.. sem gerð er í góðu skyni, komi ekki að tilætluðum notum, því að ég held, að það atriði, hvort bifreiðin er skrásett sem fólksflutningabifreið eða ekki. sé hið mesta hálmstrá til að binda sig við. Mér voru mest í hug jepparnir, þegar um þetta var rætt, og það orkar tvímælis, hvort á að skoða þá sem fólksflutningabifreiðar eða ekki. Fjöldi þeirra er í sveitum og þá notaðir til hvors tveggja. Ég veit um marga bændur, sem sótzt hafa eftir þeim, að þeir nota þá bæði til starfa á heimilinu, til að draga herfi og vagna, og til að skjótast á þeim í smáferðir í kaupstað, fara þá á þeim sjálfir og taka svo kannske með sér einn og einn mann. Þegar þessi gögn koma öll saman, er það mjög af handahófi, hvort þeir eru skráðir til fólksflutninga eða ekki, svo að óvíst er, að það létti neitt skattaálögurnar, en ekki er það nema mannlegt að vilja hafa sem léttastar byrðar að bera. Annars liggur næst að ganga á það lagið, sem frv. gefur, að þær séu aðallega notaðar til fólksflutninga. Mætti þá þannig að fara, að í sveitum, þar sem jeppar eru, væri skráð, til hvers þeir eru notaðir, t.d. af búnaðarfélagi sveitarinnar, og það sýni með rökum, að þeir séu aðallega notaðir til þarfa bóndans, og það leggi þau gögn í hendur ráðherrans og lögskýringin á þessu ákvæði verði mildileg. Þannig siðferðilegt vottorð að heiman álit ég langtum tryggara, en lögskráninguna á jeppunum, og með því að tekið sé á þessu lempilega og sem næst sanni um not þessara hluta, þá sé tekið mjúklega á því, sem sönnunargögnin segja til vegar. Það hefur verið minnzt á þann farveg, sem þetta hefur runnið í, og að þeir hafi farið til fleiri en bænda. Er og ekki því að neita, að þeir hafa farið í brask, en ekki fæ ég séð, að nein ástæða sé til að kasta steini að ákveðinni stofnun fyrir það. Er það líka vitað, að sumir bændur hafa braskað með þá. Verður að haga skráningu á þann veg. að yfirfærslan verði sönnuð, svo að komið verði í veg fyrir brask. og þarf að fylgja því vel eftir. svo að ekki séu svik í tafli.

En það. sem fyrir mér vakti með því að taka til máls, var að taka það fram, að þó að brtt. hv. 3. landsk. sé flutt í góðum tilgangi, þá mun þó betra að hafa hina frjálsu skýringu, en taka á þessu mjúklega og eftir kunnugleika. Og bæði hvað snertir jeppana og hina stærri bíla, hálfkassabíla, sem eru rútubílar og eru líka notaðir til vöruflutninga, bílar, sem hafa stóran vörupall og svo 6 sæti og eru aðdráttartæki heilla sveita, þá dettur mér ekki í hug annað en tekið verði mjúklega á þessu. að þessu athuguðu og með þetta fyrir augum mun ég greiða atkv.