16.05.1947
Efri deild: 133. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (2950)

92. mál, tannlækningar

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Eins og hv. þdm. er kunnugt, er ákveðið í l. nú, að tannsmiðir hafi heimild til að starfa sjálfstætt, þangað til fulllærður tannlæknir komi á viðkomandi stað, en með þessu frv. er gert ráð fyrir því, að réttindi tannsmiða verði aukin frá því, sem verið hefur, þannig að þeir hafi leyfi til að starfa áfram, enda þótt tannlæknir komi á viðkomandi stað, en þó nær þetta aðeins til þeirra, sem þegar hafa fengið leyfi til að starfa sjálfstætt.

Ég var því fylgjandi í hv. Nd., að frv. væri vísað frá, en hér er auðséð af undirtektum undir málið í hv. n., að þar fer því svo fjarri, að menn vil ji vísa málinu frá, heldur vilja nm. allir afgreiða málið, þó sitt með hverjum hætti. Þess vegna hef ég ekki flutt hér neina frávísunartill. eða neina af þeim till., sem fluttar voru í hv. Nd. til þess að takmarka þau auknu réttindi tannsmiða, sem hér er gert ráð fyrir, en ég stóð hér upp til þess að mæla eindregið með till. hv. minni hl. n., sem fjallar um það, eins og hv. frsm. hans tók fram, að þessi réttindi verði þó einvörðungu veitt þeim tannsmiðum, sem þegar hafa fengið leyfi til þess að vinna sjálfstætt, og bundin við þá staði, sem þeir starfa á. Álít ég, að hættulegt gæti verið að veita þeim of mikil réttindi, þar sem slíkt kynni að draga úr líkum fyrir því, að tannlæknar settust að á viðkomandi stöðum, og verð að viðurkenna þau rök, sem færð hafa verið því til stuðnings. Verð ég að líta á þetta mál út frá því sjónarmiði, og er það ekki af því, sem ég hef verið mótsnúinn málinu, að ég hafi nokkuð út á þessa stétt að setja, og þar sem hv. Alþ. hefur ekki viljað fallast á að veita tannsmiðum aukin réttindi, vil ég mæla með, að þau verði takmörkuð á þann veg, sem fram kemur í till. hv. minni hl. n.