10.04.1947
Efri deild: 112. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

221. mál, bifreiðaskattur

Pétur Magnússon:

Af því að hæstv. fjmrh. er bundinn við umr. í Nd., skal ég leitast við að svara ýmsum fyrirspurnum, sem til hans hefur verið beint, einkum frá hv. 1. þm. N-M. Ég vil samt fyrst láta þess getið, að það virðist hafa ruglað ýmsa hv. þm., að upplýsingar hafa komið um það, að jepparnir séu skráðir ýmist sem vöru- eða fólksflutningabifreiðar, og svo hafa þeir fengið það í höfuðið, að skatturinn færi eftir því. En það er með öllu óhugsandi. að skatturinn fari eftir því, hvernig bifreiðin er skrásett, því að sannleikurinn er sá, að ef þetta er rétt, þá yrðu skrásetningarstjórar að leiðrétta skrásetninguna og samræma hana, því að það nær vitanlega engri átt, að sama bifreið sé t.d. skráð vörubifreið í Rangárvallasýslu, en fólksbifreið í Árnessýslu. Það er því ekki hægt að láta skattinn fara eftir skrásetningu. Og þá verða efasemdirnar um skilning á orðalagi frv. ekki miklar. Það er lögð áherzla á gerð bifreiðarinnar, en ekki notkun. Það breytir t.d. ekki gerð fólksflutningabifreiðar, þótt aftursætið sé tekið úr og pallur settur í staðinn, eins og sést á blómaflutningabifreiðum, því að engum dettur í hug að kalla þær vörubifreiðar, þegar ekki þarf nema að setja aftursætið í aftur. Sama er að segja um vörubíla, sem notaðir eru til fólksflutninga við og við, einkum um helgar, en vitanlega kæmi engum til hugar að skattleggja þá sem fólksflutningabifreiðar. Hins vegar benti hv. 1. þm. N–M. á bifreiðar, sem orka tvímælis, þ.e. hálfkassabílana. Það getur vel hugsazt, að vörubifreiðum sé breytt þannig og eftir breytinguna sé aðalnotkunin fólksflutningar. En ég hygg, að hér sé ekki um svo margar bifreiðar að ræða, að valdi erfiðleikum í framkvæmd, en þetta er spursmál, sem ráðuneytið yrði að skera úr í hvert skipti. Um sendisveinabifreiðar gildir vitanlega það sama og vörubifreiðar. Um þær er það sama að segja og „boddíbílana“, að gerð þeirra er til vöruflutninga, og orkar það ekki tvímælis. Og þó að settir séu í þá bekkir við og við til mannflutninga, breytir það engu um hið upprunalega sjónarmið með gerð bifreiðarinnar.

Ég skal nú ekki blanda mér inn í þær deilur, sem orðið hafa um það, hvort rétt sé að greiða skatt af jeppabifreiðum sem fólksflutningabifreiðum eða ekki. Það má færa ýmis rök fyrir hvorri tveggja skoðuninni. Gerð þessara bifreiða mun þó vera miðuð við fólksflutninga. Hin mikla framleiðsla þeirra hófst í styrjöldinni, og munu þær þá aðallega hafa verið notaðar til mannflutninga, en ekki til vöruflutninga eða dráttar. (BSt: Maður hefur nú séð á kvikmyndum, að þeir eru notaðir til að draga fallbyssur. — HV: Aðallega til dráttar.) Nei, mikil ósköp. Það sér hver maður, sem lítur inn í jeppabifreið, að hún er fyrst og fremst gerð til fólksflutninga. Þar eru sæti fyrir 3–4 og jafnvel 5 manns, og hef ég vissulega farið í jeppa við 5. mann þó nokkra leið (BSt: Það er nú ekki leyfilegt.) Þetta er nú samt gert. Þetta gjald er nú ekki svo hátt, mundi verða um 400 kr. á ári, ja, það er nú reyndar þó nokkuð gjald, en eftirspurnin hefur verið mjög mikil, og vissulega er gjaldið ekki það hátt, að menn finni mjög tilfinnanlega til þess.

En mér sýnist, að eins og frv. er nú, mundu þær áreiðanlega lenda undir sköttun.

Þá vildi ég að endingu minnast á það, sem fram hefur komið hér og þá sérstaklega frá einum hv. þm., að sama gjald væri lagt á bifreiðar, sem notaðar eru til nauðsynlegra ferðalaga, og hinar, sem almennt eru kallaðar lúxusbifreiðar. En þegar menn tala um lúxusbifreiðar, þá er átt nær eingöngu við einkabifreiðar. En það er alveg misskilningur að álita einkabifreiðar fremur lúxusbifreiðar, en leiguvagna. Og ég vil segja, að leiguvagnarnir séu engu að síður notaðir sem lúxusvagnar.

Nú á síðustu árum tíðkast það mjög, að flestir menn í bæjum fari í eitthvert sumarferðalag um landið í 10–14 daga. Ef maður á lítinn Austinbíl (4 manna), sem kostar 10 þús. kr. í innkaupi, og í það minnsta fyrstu árin þarf ekki að greiða mikinn rekstrarkostnað, þá getur hann notað þennan vagn til þess að fara með fjölskyldu sína, ef hún er ekki því stærri, í 10–14 daga sumarferðalag, og kostar hann þá ekki meira en nokkur hundruð kr., náttúrlega mismunandi eftir því, hve langt yrði farið. Ef þessi maður á að taka leiguvagn í 10–14 daga, mundi hann, eftir því, sem ég bezt veit, kosta hann nú um 10 þús. kr., en hinn, sem ætti bílinn, líklega 400–600 kr.

Hvor vagninn er í þessu tilfeili lúxusvagn. einkabifreiðin eða leiguvagninn? Það er eitt víst, að það geta ekki aðrir leyft sér að taka leiguvagn með þeim taxta, sem nú er, en þeir einir, sem ekki þurfa að horfa í peninga við að skemmta sér. Og þegar þess er gætt, þá held ég, að það væri ákaflega varhugavert að torvelda mönnum mjög að geta átt sinn bíl, því að sannleikurinn er sá, að bifreiðar eru að verða nauðsynleg tæki hér á landi. Við höfum til síðustu tíma notað hestinn til feróalaga og fyrir 20–25 árum var ekki sá maður talinn með mönnum, sem ekki gat eignazt hest. Og nú er bifreiðin að verða nákvæmlega sams konar samgöngutæki sem hesturinn var í okkar ungdæmi.