02.05.1947
Neðri deild: 120. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (2974)

165. mál, fóðurvörur

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. II. kafli þessa frv. hefði tryggt bændur frá því að kaupa gallað mjöl, ef hann yrði samþ. óbreyttur. Nú leggur n. til að fella niður aðalhluta hans, sem tryggir bændur frá því að verða að kaupa hálfónýtt mjöl fyrir allt að 100.00 kr. pokann. Frá síldarverksmiðjunum hefur komið skemmt mjöl, sem selt er sem 1. flokks vara. Oft hefur það komið fyrir, að allt að 10% af 500–1000 pokum hafa verið skemmdir, og hefur verið tilgangslaust að kvarta til verksmiðjanna til að fá bót á þessu. Tjónið af þessu lenti ýmist á bændum eða þeirri verzlun, sem hefur annast dreifinguna á því. Sumir gera ráð fyrir, að 12. gr. muni ráða bót á þessum málum, en það verður þó því aðeins, að meira eftirlit verði haft með flokkun mjölsins en verið hefur. Ég býst við, að flest mjölið verði kallað 1. flokks, en oft er það mjöl, sem kemur frá verksmiðjunum, merkislaust, og er þá venjulegast ekki 1. flokks. Það mjöl er látið fara á útlendan markað, en lakara mjölið selt innanlands með fullu 1. flokks verði. Þetta þarf að fyrirbyggja, að bændur verði að kaupa lélegt mjöl fullu verði, og ég tel, að þetta frv. að fráskilinni 13.–15. gr. tryggi það ekki.

Hv. 1. þm. Skagf. minntist á þáltill. okkar hv. þm. Dal. og sagði, að gott væri að fá hana samþ. Ég býst við, að hún aðvari ríkisstj. um, að þessi mál þurfa endurbóta. En það er ekki alltaf nóg, að samþ. séu þál. Betra er að fá hlutina fasta í lögum en þáltill. En till. getur orðið til að vekja áhuga stjórnarvalda á málinu.

Ég geri ráð fyrir, að þessi brtt. n. að fella niður 13.–15. gr. verði samþ., þar sem öll n. flytur hana. En ég mun greiða atkv. á móti henni, því að ég tel hana til stórskaða og að frv. verði nú miklu minna virði en ef það hefði verið samþ. óbreytt, eins og það er á þskj. 328, því að þá hefði það orðið til mikils gagns fyrir bændur landsins.