16.05.1947
Efri deild: 133. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (2984)

165. mál, fóðurvörur

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Landbn. hefur haldið fund um þetta mál og athugað það og á fundinum rætt við þá tvo menn úr tilraunaráði búfjárræktar, sem til náðist og voru í bænum. — N. er sammála um að leggja til, að frv. taki nokkrum breyt. Eins og það kom til d., var ætlazt til þess, að tilraunaráð búfjárræktar, sem í eru fimm menn, búsettir hingað og þangað og ekki allir í bænum, hefði þetta eftirlit með höndum. N. leit svo á, að það væri óþarft að fara að setja þarna inn sérstaka n., sem hefði þetta eftirlit með höndum, og taldi eðlilegast, að þetta eftirlit yrði falið landbúnaðardeild atvinnudeildar háskólans, þar sem hún er sá aðili, sem hefur með þetta að gera, og er því gerð breyt. á frv. í þessa átt.

Hin breyt., sem n. leggur til, er sú, að í stað þess, sem í upphafi var ætlazt til með það gjald, sem á að bera uppi þessar rannsóknir og þetta eftirlit og m. a. átti að fara til að greiða tilraunaráði, sem ætluð var sérstök þóknun fyrir starf sitt, að það rynni í sérstakan sjóð, sem væri ávaxtaður og gerður upp um hver áramót, og ef afgangur yrði, væri hann látinn renna í ríkissjóð, en ef vantaði, þá greiddi ríkissjóður það, sem á vantaði, — þetta þótti okkur ekki ástæða til að hafa, heldur leggjum við til, að landbúnaðardeild atvinnudeildar háskólans haldi sérstakan reikning um tekjur þær, sem inn koma eftir 5. og 10. gr., og geri ríkisstj. fulla grein fyrir. — Breyt. eru því eiginlega aðeins tvenns konar, en brtt. eru svo margar vegna þess, að svo víða þurfti að breyta um orð.

Ég vænti þess, að þessar brtt. n. nái fram að ganga, og finnst þær í alla staði miklu eðlilegri en frv. eins og það áður var.