07.05.1947
Efri deild: 127. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í B-deild Alþingistíðinda. (3008)

151. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Björn Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og hv. þdm. sjá, hef ég skrifað undir nál. með fyrirvara. Hann snertir aðeins brtt. við 22. gr., um allar aðrar brtt. er ég sammála meðnm. mínum.

Hv. frsm. n. hefur nú talað fyrir þessum brtt. og m. a. fyrir till. meiri hl. um 22. gr., en hann vill gerbreyta gr. og taka upp stutta gr., sem er gerbreyting á því fyrirkomulagi, sem er í gildandi l. frá 1942. Ég ætla ekki að fara að telja upp allar röksemdir hv. frsm., það eru þær sömu og hann bar fram í n. og ég hef ekki getað fallizt á. Eins og hann tók fram, eru sérstakar reglur í l. frá 1943 frávik frá öðrum reglum um björgunarlaun fyrir skip. En nú er takmarkaður réttur skipa, sem vátryggð eru hjá samábyrgðinni, til bóta og sömuleiðis manna og skipa, sem gerð eru út af ríkissjóði, þ. e. strandferðaskipanna og varðskipanna. Þessum skipum er gert að skyldu að hjálpa án launa. Þetta finnst meiri hl. ekki rétt, að sé skert samkv. eldri l., og óhæfilegt, samanborið við önnur skip, sem ekki eru undir þessum l. Ég lít á þessi ákvæði sem réttmæt og að þau eigi að haldast. Vátryggingargjöldin eru svo há, að þau eru einn þyngsti bagginn á útgerðinni. Það er því mikil nauðsyn, að hægt sé að lækka iðgjöldin, og þessi ákvæði miða einmitt að því. Það er talað um, að það sé mikið ósamræmi í því, að þessir menn fái minni rétt til bóta. Ég sé ekki, að það sé á rökum reist. Allir mennirnir eru í vátryggingarfélagi, og því hlýtur það að vera sameiginlegt hagsmunamál þeirra, að iðgjöldin séu sem lægst. Í mörgum tilfellum, þegar skip þarf á björgun að halda, eru bæði skipin frá sama félagi. Það veit enginn fyrir fram, hver fyrir því verður. Sá, sem björgunarlaun fær í dag, getur orðið fyrir því að þurfa að greiða þær háu bætur, sem meiri hl. n. vill hafa, á morgun. Þessum mönnum, sem hér um ræðir, má skipta í 2 flokka 1) skipverja, sem eru í þessum félögum, og 2) starfsmenn á skipum ríkisins. Þeim, sem eru í fyrri flokknum, hlýtur að vera það hagsmunamál að halda bótagreiðslunum niðri, svo sem hægt er, svo að iðgjöldin hækki ekki. Hinir eru fastir starfsmenn ríkisins, sem hafa ákveðið mánaðarkaup, og eitt af störfum þeirra er að veita skipum aðstoð, og er ekki óeðlilegt, þó að þeir geti ekki gert sér björgunarstarf að féþúfu. Þá er því haldið fram, að þetta geti orðið til þess, að skip veiti ekki aðstoð sína öðrum skipum, sem eru biluð eða, í háska. Ég get ekki hugsað mér, að nokkur maður hafi þann hugsunarhátt, að hann hugsi fyrst og fremst um það, hvort hann fær háa borgun eða ekki fyrir björgunina. Hefði ég haldið, að þetta drægi á einhvern hátt úr öryggi skipanna, hefði ég verið með meiri hl. n., en ég get bara ekki trúað, að þessi hugsunarháttur sé til, og held þess vegna, að þessi ástæða sé ekki veigamikil. Í þessari gr., eins og hún er í l., er ekki svo að skilja, að skip, sem aðstoða eða bjarga öðrum skipum, fái engar bætur. Þær eru ákveðnar, en eru mjög takmarkaðar. Nú, í flestum tilfellum mundu þessi skip fá mestallt tjónið bætt, sem þau verða fyrir vegna björgunar, og lengra vil ég ekki ganga. Ég býst við, að þessi skoðun mín fái kannske ekki mikinn hljómgrunn hér í hv. d. Að vísu eru ekki margir hv. þm. á fundi.

Ég vil að lokum óska þess, að gr. verði látin standa, eins og hún er í l. og frv., og þessi brtt. hv. n. verði ekki samþ.

Hugsazt gæti — ég veit ekki, hvernig skoðun hv. þm. Nd. er —, að breyt. á þessari gr., ef hún verður samþ., yrði til þess, að málið næði ekki fram að ganga, því að ef það er rétt, sem ég hef heyrt — ég hef að vísu ekki átt teljandi tal við sjútvn. Nd. —, að þeir munu leggja nokkuð mikið kapp á, að þessi gr. standi óbreytt, þá gæti svo farið, ef henni yrði hér breytt, að þær réttarbætur, sem annars felast í þessu frv., gætu ekki orðið að l., og tel ég þá illa farið.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Ég geri ráð fyrir, að í málinu komi ekkert nýtt fram. Það hefur verið margtalað um þetta atriði og þetta mál í n. og ástæður meiri hl. n. verið teknar fram af hv. frsm. meiri hl. n. Og ég treysti mér ekki til að taka frekar fram mínar skoðanir á þessum atriðum en ég hef þegar gert.