16.05.1947
Neðri deild: 129. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1771 í B-deild Alþingistíðinda. (3019)

151. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti. Ég skal reyna að hafa þessa grg. fyrir brtt. eins stutta og ég get. Frv. þetta, sem er stjfrv. og flutt fyrir stjórnina af sjútvn. þessarar hv. d., er um vátryggingarfélög fyrir vélbáta. Í hv. Ed. voru gerðar allmargar breyt. á þessu frv. Flestar eru þær smávægilegar, orðabreytingar, sem eru þó ekki nauðsynlegar. En til að stytta mál mitt, skal ég ekki fara út í þær breyt., sem sjútvn. þessarar hv. d. hefur gengið inn á. N, er þó mótfallin ýmsum. þessum breyt. og telur þær heldur til skaða, en ekki er ástæða til að hrekja svona mikilvæg mál milli d. vegna atriða, sem eru smávægileg. En ýmisleg atriði eru það, sem hv. Ed. hefur sett inn í frv., sem koma í bága við vilja og reynslu vátryggingarfélaga, því að frv. er samið af mþn. í samráði við alla, sem hafa með vátryggingu að gera, og í fullu samráði við vátryggingarfélögin, sem nú eru 19 að tölu, og samábyrgðina. Ég skal svo lýsa þeim breyt., sem sjútvn. þessarar hv. d. vill færa aftur til síns upphaflega vegar.

Við 12. gr. hefur af misskilningi verið gerð breyt. Gr. fjallar um flutning skips frá einu vátryggingarsvæði á annað og viðurlög við vanrækslu á flutningi vátryggingarinnar. Hv. Ed. hefur breytt gr. svo, að hún snýst nú eingöngu um tilkynningu um flutninginn, en deilur hafa aldrei snúizt um tilkynninguna nema sem afleiðingu, heldur eingöngu um flutning tryggingarinnar. Sjútvn. þessarar hv. d. hefur því lagt til, að þarna verði bætt inn nýjum málslið, og tel ég hann leiðréttingu frekar en breyt., svo felldum: Sömu viðurlögum varðar það eiganda, ef hann vanrækir að skrásetja skipið tafarlaust á hinu nýja tryggingarsvæði. — Ég hygg, að varla verði ágreiningur við hv. Ed. um þetta atriði.

2. brtt. er líka við breyt., sem hv. Ed. gerði af misskilningi, en hún er við 17. gr., þar sem talað er um ógildingardóm yfir skipi, sem hefur strandað eða fengið áfall, þá segir í frv., eins og það var, að vátryggður eigi rétt til bóta, ef kostnaðurinn við aðgerðina fer fram úr verði skipsins í viðgerðu ástandi, að frádregnu verði þess óviðgerðs. En hv. Ed. hefur breytt þessu svo, að í stað verðs hefur hún sett tryggingarupphæð, en það er vitað, að það er mjög oft allt annað en verðmæti skipsins. Ég held því, að þetta sé á misskilningi byggt, og vona, að hv. Ed. láti frv. ekki hrekjast milli d. af þessum sökum.

Höfuðbreyt., sem þessi hv. d. er beðin að aðhyllast, er þannig, að í l., eins og þau eru nú, er ákveðið, að þeir, sem tryggðir eru hjá þessum félögum, eru skyldir að veita aðstoð og fá greitt að skaðlausu allt það, sem þeir hafa í sölurnar lagt, svo sem vinnu, skemmdir eða tafir. En björgunarlaun eru aðallega miðuð við verðmæti þess, sem bjargað er, og veit ég dæmi til þess, að skip, sem dró annað, sem var með bilaða vél, krefst 75 þús. kr. björgunarlauna og fær það líklega, en hefði fyrir fyrirhöfnina fengið um 2–3 þús. kr. Af þessu eina dæmi sést, að hér er ekki um neinar smáupphæðir að ræða, heldur það gagnstæða, og geta fátæk félög hæglega komizt í greiðsluþrot af þessum sökum. Þetta raskar algerlega fjárhagslegum grundvelli hinna fátækari félaga, ef þessi breyt. yrði að l., en þetta var ágreiningslaust samþ. af sjútvn. þessarar d., og er sjálfsagt og réttlátt, að vilji þessarar d. verði ofan á, þar sem hún er fjölmennari, en ég vona, að samkomulag náist við hv. Ed. um þetta atriði.

Við 29. gr. hefur n. flutt litla brtt., en þó efnismikla. Nú hefur vátryggingarfélag heimild til að neita skipstjórn skipstjóra, sem þrisvar sinnum, verður uppvís að tjóni vegna trassaskapar. Erlendis er ekki tryggt, ef þetta kemur fyrir einu sinni, en hér er það þó haft þrisvar sinnum. Hv. Ed. breytti þessu svo, að eigandi skipsins getur haft þennan skipstjóra áfram, en sjútvn. þessarar hv. d. sér enga ástæðu til að fallast á það.

Við 31. gr. er gerð breyt. Hv. Ed. breytti gr., en hún segir, að skip, sem liggur við land, sé tryggt fyrir hafnaráhættu. Hér hefur hv. Ed. bætt við: „og bruna“, en bruni er einmitt aðalhafnaráhættan, svo að það felst í þessu ákvæði, og væri broslegt, ef þetta væri samþ.

Við 32. gr. er önnur höfuðbreyt., en gr. er um úrskurð ágreinings, sem skal vera með gerðardómi, og hefur honum verið breytt frá því, sem nú er, að aðilar skuli tilnefna hvor sinn mann í dóminn og héraðsdómari svo oddamaður. Þetta þýddi, að dómurinn varð í flestum tilfellum úrskurður eins manns, þar sem aðilar eru ekki sammála, og þótti það heldur veikt, og var því svo ákveðið í frv., að allir gerðardómsmenn skuli skipaðir af hæstarétti. Slíkur dómur jafngildir því hæstaréttardómi. En hv. Ed. bætti við, að málinu mætti svo áfrýja til hæstaréttar, sem þýðir í framkvæmd, að því yrði vísað frá hæstaréttardómurunum til hæstaréttar. Málið yrði einnig á þann hátt dómsmál og mjög kostnaðarsamt, svo að svo til enginn ágreiningur bæri það uppi, nema um mjög miklar upphæðir væri að ræða.

Þá er breyt. við 36. gr., en hún segir, að ef svo stendur á, að eitthvað kemur fyrir, sem ekki eru ákvæði um í l., skuli l. og venjur samábyrgðarinnar gilda um það. En í l. samábyrgðarinnar segir, að um allt það, sem ekki er ákveðið í l., skuli farið eftir alþjóðlegum reglum, sem er saman safnað í sérstaka bók og viðurkennt erlendis, t. d. á Norðurlöndum. Þetta eru því alþjóðareglur, enda er ekki hægt að taka fyrir öll tilfelli í okkar stuttorðu l. Hv. Ed. vill hafa reglugerð um þetta, en það er ekki hægt. Hún yrði allt of yfirgripsmikil og endurprentun á alþjóðareglunum. Auk þess er ekki hægt að setja reglugerð, nema hún sé byggð á ákveðnu atriði í l. Þessi brtt. er því í samræmi við öll tryggingal. um Norðurlönd og víðar.

Vestmannaeyjafélagið er undanþegið ákvæðum þessara l. nema 22. gr. Að þessu lýtur 8. brtt., og er hún eðlileg afleiðing af brtt. við 22. gr. Ég vænti þess, að hv. Ed. fallist á þessar breyt. og hrekji málið ekki frekar milli d., þar sem sjútvn. þessarar hv. d. og hv. d. eru sammála, enda mun sú d. ráða, sem fjölmennari er, en það mundi tefja málið um of, ef það færi til Sþ. N. óskar eftir, að málinu sé hraðað og stafar það m. a. af samningum við erlend vátryggingarfélög, sem þarf að endurnýja fyrir 1. júlí n. k., og er því full þörf á því, að málinu sé hraðað.