11.04.1947
Neðri deild: 110. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

221. mál, bifreiðaskattur

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Ég vil vekja athygli á því, hver grundvöllurinn er fyrir því, að allar bifreiðar, sem nefnast fólksbifreiðar, eru hér settar við sama borð. Hann er sá, að þessar einkabifreiðar, sem nefndar eru lúxusbifreiðar, eru í mörgum, ef ekki flestum tilfellum alls ekki réttnefndar lúxusbifreiðar. Það kann að vera, að þær séu eins og aðrar bifreiðar notaðar á tímabili til eyðslu, sem kallað er, eða óhófs, en það má þá segja alveg það sama um leigubifreiðarnar, að það er ekki alltaf þörf keyrsla, sem framkvæmd er með leigubifreiðum. Nú er það svo, að fjöldi manna hér á landi hefur eignazt bifreiðar á síðasta ári og það, sem af er þessu ári, sjálfsagt miklu meira en nokkurn tíma á jafnlöngum tíma áður. Það er að minni hyggju alveg rangt að telja það óhófseyðslu í öllum tilfellum, þó að menn hafi eignazt bíl til sinna eigin afnota. Fjöldinn allur er litlir bílar, sem ýmsir menn hafa keypt. sem engan veginn verða kallaðir efnamenn, því síður stórefnamenn, en hafa hins vegar þörf fyrir að hafa farartæki, engu síður en þeir, sem kaupa undir sig leigubifreiðar. Það er ekki hvað sízt með tilliti til þessa fjölda manna í öllum stéttum og starfandi við ýmiss konar verk í þjóðfélaginu, sem ég hef ekki talið rétt að stimpla þá alla sem óhófseyðslu- eða lúxuskeyrslumenn eða bíla þeirra sem óhófstæki. Og að kalla einkabifreiðar „lúxus“ er í flestum tilfellum rangnefni. Á hinn bóginn er vitað, að leigubifreiðar eru atvinnutæki, sem gefa af sér ákaflega mikinn gróða. Sést það á því, hversu mjög menn sækjast eftir að fá slíkar bifreiðar, jafnvel þótt þær séu notaðar og verði að kaupa þær háu verði. Það sannar bezt, að þær gefa góðan arð. Þessar bifreiðar eru allt of dýrar til að taka á leigu fyrir fjölskyldur, sem vilja nota tækifærið til að komast úr bænum, sem kallað er. Fyrir slíkar fjölskyldur er miklu hentugra, ef þær geta klifið það, að eignast lítinn bíl, sem þær geta ráðið yfir sjálfar. Ég held, að það megi fyllilega, um leið og sjónarmið hv. þm., sem talaði hér síðast, verður tekið til athugunar í n., sem ég skal á engan hátt mæla á móti, lita á það sjónarmið, sem ég hef hér fært fram, sem sé að fjölda mörgum mönnum og fjölskyldum er beinlínis brýn þörf að hafa bifreið til sinna eigin þarfa, og það er rangnefni að stimpla þær allar sem „lúxus“. Ég tel, að afrakstur leigubifreiða sé það mikill, eins og er á allra vitorði, að það er engin ástæða til, að á þeim sé lægri skattur en bifreiðum einstakra manna. Um það má deila, hvað sé lúxusakstur og hvað sé óþarfaakstur og hvað ekki, en ég held, að það sé auðvelt að sannfæra sig um það hér í Reykjavík, að stöðvarbifreiðar eru ekki síður notaðar til slíks aksturs, en einkabifreiðar. Ég vil aðeins taka þetta fram, til þess að þessi sjónarmið, sem tekin eru fram í frv., séu rökstudd að einhverju leyti varðandi skattlagninguna á bifreiðum.

Um jeppabílana er það að segja, að reynslan sýnir, að þeir eru ákaflega mikið notaðir á svipaðan hátt og aðrir fólksbílar. Það er að vísu rétt, að með þeim má vinna sum landbúnaðarstörf og er sjálfsagt sums staðar gert, en ég tel, að þeir séu yfirgnæfandi notaðir á þann hátt, jafnvel í sveitunum líka, til að skreppa milli bæja og til ýmissar aðstoðar við heimilisstörf, í mörgum tilfellum á svipaðan hátt og þeir litlu bílar eru notaðir, sem eru nú í margra eigu. Um notkun jeppanna í bæjunum þarf ekki að ræða, þeir eru þar ekki notaðir til landbúnaðarstarfa, heldur blátt áfram sem hverjar aðrar bifreiðar, og gefur auga leið daglega að sjá það.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta meira, af því að það er áliðið nætur. Ég veit, að þetta verður tekið til athugunar í fjhn. En þar sem þessi hv. þm. fór að hreyfa þessum aths., þá vildi ég koma þessum rökstuðningi á framfæri.