11.04.1947
Neðri deild: 110. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

221. mál, bifreiðaskattur

Sigfús Sigurhjartarson:

Það er rétt athugað hjá hæstv. ráðh., að það virðist allarðvænlegur atvinnuvegur að eiga bifreið til fólksflutninga, en ég hygg, að hæstv. ráðh. geti ekki hugsað það í alvöru, að verði lagður nýr skattur á þessar bifreiðar, þá muni aðrir borga það en þeir, sem nota bílana, því að bifreiðarstjórar munu vitanlega hækka sín flutningsgjöld, og þannig verður þessum skatti, að svo miklu leyti sem hann hvílir á leigubifreiðum, velt á þá, sem bifreiðarnar nota, en ekki tekinn af þeim gróða, sem þessir bílstjórar kynnu að hafa af sinni atvinnu.

Hæstv. ráðh. vill ekki fallast á, að einkabifreiðarnar séu að jafnaði „lúxus“. Það getur vel verið til, að menn hafi einkabifreiðar, sem þeim séu nauðsynlegar vegna síns starfs eða atvinnu, en allur fjöldi einkabifreiða er „lúxus“, sem menn leggja sér til, af því að þeir hafa á því góð efni. Það er meginreglan. Mér kemur hins vegar ekki á óvart þetta álit hæstv. ráðh. Ég veit vel, að ef við færum að tala við hann og hæstv. ríkisstj. um að skattleggja eyðslu, svo að notað sé orðalag hæstv. menntmrh., þá mundi svarið alltaf verða það sama: Þetta er enginn „lúxus“. Ef ég benti á það, að tveir menn búa í sex herbergja íbúð, þá er það enginn „lúxus“. Það er að vísu æskilegt, að menn geti búið rúmt, en það er ekki samrýmanlegt þörfum almennings, þegar húsnæði vantar, og þess vegna á að skattleggja slíkar íbúðir, en svarið er það sama og með bifreiðarnar: Þetta er enginn „lúxus“, og því er rétt, að allir séu settir við sama borð. Ég býst við, að því verði haldið fram yfir höfuð, að engir menn séu með lúxuseyðslu og þess vegna eigi enginn að vera skattlagður öðrum fremur.