14.11.1946
Neðri deild: 17. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (3037)

71. mál, ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 105, um Ræktunarsjóð Íslands, er flutt af landbn. þessarar hv. d. Það er ekki nýr gestur hér í þinginu, því að á síðasta fjárlagaþingi var það flutt sem 177. mál á þskj. 451. Var það þá einnig flutt af landbn., en var upphaflega samið af nýbyggingarráði. Allýtarleg grg. fylgdi þá frv., sérstaklega varðandi það, hversu mikið fjármagn sjóðurinn hefði til útlána með þeim fjáröflunarleiðum, sem frv. gerði ráð fyrir. Ég leyfi mér að benda hv. þm. á þessa grg. á þskj. 451 frá fyrra ári, sem nú var ekki endurprentuð af sparnaðarástæðum. Þetta frv. átti ásamt með l. um landnám, nýbyggingar og endurbyggingar í sveitum, sem samþ. voru á þinginu í fyrra, að mynda heildarkerfi um lánastarfsemi fyrir landbúnaðinn, samsvarandi l., sem samþ. voru á sama þingi um stofnlánadeild fyrir sjávarútveginn. Frv. um ræktunarsjóð var mjög sniðið eftir frv. um stofnlánadeildina, hvað snerti útlán og vexti, og var til þess ætlazt, að það gæti orðið jafnþýðingarmikið fyrir landbúnaðinn sem stofnlánadeildarfrv. fyrir sjávarútveginn. En þetta mál dagaði uppi hér í d. í fyrra, eftir að tvær umr. höfðu farið fram um það. Voru þá gerðar á því nokkrar breyt., en engin veigamikil.

Það getur ekki leikið á tveim tungum, að brýna nauðsyn beri til að koma á fót almennri lánastofnun fyrir landbúnaðinn, líka þeirri, er sjávarútvegurinn fékk með stofnlánadeildinni, og sé þá lánastarfsemi og vaxtakjör í samræmi við það, sem stofnlánadeildin rekur. Ég tel óhugsandi, að hið háa Alþ. sjái sér nú fært að afgreiða ekki frv. um Ræktunarsjóð Íslands. Þó álít ég, og reyndar fleiri nm., að breyt. þurfi að gera á frv., enda verða þær vafalaust bornar fram, en fullt samkomulag var um það í n. að flytja frv. óbreytt frá því, sem það var, eftir að tvær umr. höfðu farið fram um það í fyrra.

Saga ræktunarsjóðs er orðin nokkur. Hann var stofnaður árið 1900, en hafði þá afar lítil fjárráð, og fyrstu 25 árin má segja, að sjóðurinn hafi enga lánastarfsemi rekið, en veitti stöku sinnum viðurkenningar bændum, er höfðu skarað fram úr í landbúnaðarframkvæmdum. Var hann því til lítils stuðnings fyrir landbúnaðinn fram til ársins 1925, að hann var gerður að lánastofnun, en fjárhagurinn var þó eftir sem áður þröngur og vaxtakjör óhagstæð. Komust vextirnir allt upp í 6%. 1935 var þó svo ákveðið, að vextir skyldu ekki vera hærri en 5%, en það mun þó hafa komið fyrir. Er það ljóst, að ekki getur gengið, að þessi lánastofnun landbúnaðarins hafi tvöfalt hærri vexti en stofnlánadeild sjávarútvegsins.

Ég lít svo á, að í þessu frv. sé um þrjú höfuðatriði að ræða. Í fyrsta lagi, að vextir skuli ekki vera hærri en 2½%, eða eins og hjá stofnlánadeildinni. Í öðru lagi, að fjármagnið til ræktunarframkvæmda sé aukið. Mín skoðun er sú, að það sé nú allt of lítið, og vil ég benda hv. þm. á grg. sem upphaflega fylgdi frv., þar sem tekið er fram, að hæpið sé, að með frv. sé nægilega séð fyrir lánaþörf landbúnaðarins, og stendur þetta í nánu sambandi við þriðja höfuðatriði frv., sem felur í sér möguleika til þess að lána fé til fleiri umbóta á sviði landbúnaðarmála en verið hefur. Það hefur í för með sér aukna fjárþörf, og kemur þetta síðasta atriði ekki að gagni, ef fjármagn sjóðsins er ekki aukið.

Í 5. grein segir, til hvers megi lána fé úr sjóðnum. Það er ekki einungis til jarðræktar og bygginga, heldur og til verksmiðja, vélakaupa og jafnvel bústofnskaupa, ef viss skilyrði eru uppfyllt. Þetta gerir fjárþörfina mun meiri, og þarf að athuga það í meðferð þessa máls hér í þessari hv. d.

Með þessu frv. var gert ráð fyrir að koma upp fullnægjandi lánastofnun fyrir landbúnaðinn ásamt með l. um landnám og endurbyggingar í sveitum. Einn flokkur manna hefur þó orðið út undan. Í l. um landnám og endurbyggingar í sveitum segir, að aðeins megi lána til þeirra býla, sem talin eru lögbýli, en samkv. núgildandi l. eru ýmis smábýli í grennd við kauptún og kaupstaði, sem ekki teljast lögbýli. Fylgir þeim oftast sáralítið land, enda styðjast þau að sumu leyti við aðra atvinnuvegi en landbúnað. Eigendur þessara býla yrðu því enn sem fyrr út undan, þótt þetta frv. yrði að l., nema heimild fengist nú hér á Alþ. til að lána til þeirra. (Ég tek það fram, að hér tala ég eingöngu fyrir mína hönd, en ekki allrar nefndarinnar.) Þessir menn þurfa á einn eða annan hátt að eiga kost á lánum til landbúnaðarframkvæmda, og þarf þá jafnframt að rýmka fjárhag ræktunarsjóðs, því að nú er hann svo þröngur, að verkefnin geta ekki aukizt án aukins fjármagns. Sé ég nú ekki ástæðu til að ræða málið nánar á þessu stigi. Brtt. munu vafalaust koma fram, og liggja væntanlega fyrir við 2. umr. Legg ég að lokum til, að frv. verði vísað til 2. umr., en tel ekki þörf á að vísa því til n., þar eð málið er flutt af sjálfri n.