25.02.1947
Neðri deild: 81. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1779 í B-deild Alþingistíðinda. (3040)

71. mál, ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Herra forseti. Það er nú langt síðan þetta frv. var til 1. umr. hér í hv. d., og hafa ýmsar ástæður valdið því. M. a. hefur landbn. leitað umsagnar bankastjóra Búnaðarbankans um frv. Hefur hann sent þó nokkrar till. til breyt. á frv. til n., sem hún hefur að nokkru leyti tekið til greina í þeim brtt., sem landbn. flytur á þskj. nr. 436. Skal ég ekki hafa þennan formála lengri, en lýsa þeim breyt., sem landbn. leggur til, að gerðar verði á frv.

1. brtt. n., við 4. gr. frv., er um, að sú gr. falli niður. 4. gr. frv. fjallar um það, að Búnaðarfélag Íslands og nýbyggingarráð skuli gera rannsókn á núverandi ástandi íslenzks landbúnaðar og áætlanir um þróun hans næstu 10 ár, og gera á þann hátt áætlanir, sem hafðar séu til hliðsjónar, þegar lánveitingar eru ákveðnar úr ræktunarsjóði. Þetta atriði málsins var nokkuð rætt í n., en nm. féllust allir á það, að heppilegra væri, að ákvæði sem þessi, sem í 4. gr. frv. eru nú, væru í öðrum l. en beinlínis í l. um þessa lánsstofnun, og hölluðust nm. að því, að þessi ákvæði ættu heima í l. um fjárhagsráð, sem gert var ráð fyrir samkv. þeim samningi, sem auglýstur hefur verið milli þeirra flokka, sem nú standa að hæstv. ríkisstj., að sett yrðu hér á þessu þingi. Ég geri ráð fyrir, að nm. í landbn. hafi nokkuð misjafna trú á því, hve langt eigi að ganga í ákvæðum eins og þessum. En yfirleitt var það skoðun þeirra, að í þessu væntanlega frv. ættu þessi ákvæði heima, en síður í sjálfum l. um ræktunarsjóðinn, enda hafði bankastjóri búnaðarbankans bent á það og lítur eins á það, að heppilegra sé, að þessi ákvæði séu annars staðar en í þessum l. En það er ekki skoðun n., að ekki geti verið rétt, að ákveðið sé í l., að tekið skuli tillit til þessa, þegar lánveitingar eru ákveðnar, heldur álítur n., að þau ákvæði eigi ekki að vera í l. um sjálfa bankastofnunina, ræktunarsjóðinn.

Þá er 2. brtt. n., við 5. gr. frv. Hefur n. orðað upp allan síðari hluta gr. frá því, sem í frv. stendur. Í frv. er gert ráð fyrir, að upphæð lánanna megi vera allt að 50% kostnaðarverðs til þeirra framkvæmda, sem styrkur er veittur til samkv. jarðræktarl. En n. hefur lagt til að lækka þetta í 30%. Þetta hefur að nokkru leyti verið gert í samráði við bankastjóra búnaðarbankans. N. féllst á það, að í ýmsum tilfellum væri veittur svo mikill styrkur til jarðræktarframkvæmda samkv. jarðræktarl., að óþarft gæti verið í ýmsum tilfellum að fara í 50% með þessi lán. Og þó að hér sé í frv. að vísu um hámark að ræða og ekki þyrfti að fara svona hátt með lánin í öllum tilfellum, þá áleit n., að hægt væri að færa þetta niður í 30%. — Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í frv., að það megi lána allt að 66,7% kostnaðarverðs til annarra framkvæmds, enda sé það kostnaðarverð að dómi forráðamanna sjóðsins ekki hærra en eðlilegt má telja samkv. verðlagi á hverjum tíma, þetta hefur n. lagt til, að verði lækkað og ekki lánað þannig úr sjóðnum nema allt að 60% kostnaðarverðs, og er það að nokkru leyti gert vegna álits frá Búnaðarbankanum. Annars voru skoðanir nm. í landbn. dálítið skiptar um þetta, sumir nm. vildu halda sér við 2/3. En samkomulag varð að síðustu um það, að í þess stað kæmi ákvæði um 60%. — Þá er þriðja efnisbreyt., sem í brtt. n. felst, við þessa gr. frv. Þar leggur n. til, að sett verði inn ný málsgr., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Um lánveitingar, er stjórn sjóðsins telur vafa leika á, hvort veita skuli, skal hún leita álits Búnaðarfélags Íslands eða nýbýlastjórnar ríkisins, eftir því sem við á.“ Þessi ákvæði voru að nokkru leyti í 4. gr. frv., og þótti n. rétt að taka þau þar út úr og setja þau hér inn í þessa gr. Það eru báðar þessar stofnanir, Búnaðarfélag Íslands og nýbýlastjórn ríkisins, sem hér geta komið til greina til álita um framkvæmdir, sem ræktunarsjóðurinn veitir lán til. Ætlazt er til þess, að sjóðsstjórnin hafi samráð við hvora þessa stofnun fyrir sig, eftir því sem ástæður eru til í hvert skipti, eftir því undir hvora stofnunina málin heyra samkv. eðli sínu. — Það eru þessar þrjár breyt., sem felast í raun og veru í 2. brtt. landbn. við 5. gr. frv.

3. brtt. landbn. er við 6. gr. frv., og er lagt til, að 6. gr. verði algerlega orðuð um. Um verulegar efnisbreyt. er þar ekki að ræða, en þetta þótti heppilegra orðalag á gr. Þarf ekki fleiri orð um það.

Þá er 4. brtt. n. við 7. gr. frv. Þar er lagt til, að síðari málsl. 7. gr. frv.: „Allur kostnaður við lánin skal greiddur af rekstrarreikningi sjóðsins, án sérstakrar greiðslu lántakenda“ — falli niður. Þessi till. til breyt. er gerð samkv. till. Búnaðarbankans, sem telur, að þetta sé óeðlilegt ákvæði, sem þarna stendur í frv., og ekki í samræmi við það, sem tíðkazt hefur venjulega í bankastarfsemi, og féllst n. á, að vel mætti fella þetta ákvæði niður, þannig að þennan kostnað, sem hér er um að ræða, verða lántakendur sjálfir að borga, en ekki bankastofnunin sjálf.

Þá er næsta brtt. n. við 8. gr. frv. Í þeirri gr. er svo ákveðið, að það megi í vissum tilfellum veita lán úr ræktunarsjóði gegn fasteignaveði eða ábyrgð hreppsfélags eða sýslufélags. Það varð að samkomulagi í n., að ákvæðið um það, að veita mætti lán úr þessari lánsstofnun gegn ábyrgð hreppsfélags, félli niður, vegna þess að yfirleitt mundi alls ekki verða veitt lán úr sjóðnum gegn þeirri ábyrgð. Það hefur ekki tíðkazt að veita lán úr lánsstofnunum gegn slíkri ábyrgð, og mundi ekki fremur verða gert, þó að heimild til þess stæði í þessum l. Leit landbn. því svo á, að eðlilegast og heppilegast væri að fella þetta ákvæði niður, þannig að ef lán væri af þessari stofnun veitt gegn ábyrgð einhverrar félagsheildar, þá gæti þar komið til greina sýslufélag, en ekki hreppsfélag. Aðrar brtt. eru ekki við 8. gr. frv. Þó að það kæmi til mála í n. að breyta fleiri atriðum í þessari gr. frv. og þó að það kæmu um það till. frá Búnaðarbankanum, þá varð það að ráði í n. að leggja ekki til fleiri breyt. á þessari gr.

6. brtt. n. er við 9. gr. frv., sem fjallar um lán allt að 10 millj. kr., sem seðladeild Landsbankans skuli lána Búnaðarbankanum gegn 1½% vöxtum. Þessi gr. frv. er samkv. brtt. n. orðuð um, en stórar efnisbreyt. er þar ekki um að ræða. Aðalefnisbreyt. er, að þar sem talað er um það í frv. að veita bæði A-lán og B-lán, þá er í brtt. n. gert ráð fyrir, að þarna verði aðeins um eins konar lán að ræða, en ekki þessi skipting milli A- og B-lána. Ég geri ráð fyrir, að eitthvað heyrist frá hæstv. ríkisstj. um þessa gr. Þetta er atriði, sem mun hafa verið deiluatriði varðandi stofnlánadeild sjávarútvegsins, þegar það mál var til meðferðar. En þetta frv. er byggt svipað upp efnislega eins og það frv. var í upphafi. En það bíður a. m. k. þangað til heyrist, hvað hæstv. ríkisstj. segir um það, sem hér liggur fyrir. En það er áreiðanlega skoðun landbn., að ekki megi rýra þau fjárráð, sem ræktunarsjóður á að hafa samkv. frv. Ég hef sannfærzt um þetta nú hina síðustu mánuði, hvílík geysileg eftirspurn hefur verið eftir lánum úr ræktunarsjóði. Það má yfirleitt segja svo, að bændur hundruðum og jafnvel þúsundum saman bíði eftir því nú að geta fengið lán til margvíslegra framkvæmda úr ræktunarsjóði, þannig að það er víst, að þau fjárráð, sem sjóðurinn hefur samkv. frv., mega alls ekki knappari vera. Vísa ég þar um í grg., sem upphaflega fylgdi þessu frv. frá nýbyggingarráði, þar sem sagt er, að fjárráðum sjóðsins sé skorinn stakkur í þrengzta lagi. Ég sé ástæðu til að taka þetta fram í sambandi við þá gr., sem hér er um að ræða.

7. brtt. n. er við 10. gr. frv. og er aðeins afleiðing af þeirri breyt., sem lagt er til, að gerð verði á 9. gr. frv., þar sem lagt er til, að lánin verði ekki flokkuð í A- og B-lán. En í 10. gr. frv. er talað um B-lán, og er þessi brtt. aðeins til samræmingar í þessu efni.

Þá er 8. brtt. n. við 13. gr. frv. Undir tölul. 8. í brtt. n. eru í raun og veru tvær brtt., a og b, þannig að n. varð ásátt um að orða um tvo töluliði 13. gr. frv. Í fyrsta lagi 3. tölul., þar sem svo segir, að heimilt sé að telja lán eða eftirstöðvar þeirra lána, sem veitt eru úr ræktunarsjóði, komin í gjalddaga án uppsagnar, ef eigendaskipti verða að veði fyrir þeim eða veðið eyðileggst. Þennan 2. tölul. vill n. orða svo, með leyfi hæstv. forseta : „Við eigendaskipti að veði fyrir láni, ef ræktunarsjóði hefur ekki verið tilkynnt um eigendaskipti.“ Landbn. virtist óþarfi, að heimilt væri að segja upp láni, þó að eigendaskipti yrðu að veðinu, ef veðið hefði ekki rýrnað að neinum mun við þau eigendaskipti, en vill þó setja það að skilyrði fyrir áframhaldandi láni út á veðið, að tilkynnt sé um eigendaskipti að veðinu. Þar með er sú skylda lögð á þá, sem taka við láninu, að þeir skýri ræktunarsjóði frá því, en bankinn geti ekki sagt upp láninu, ef veðið er í lagi og ekki óskilsemi á neinn hátt. Á sama hátt hefur n. lagt til að umorða 4. tölul., þar sem sagt er, að heimilt sé að segja upp láni, ef lántakandi hættir landbúnaðarframleiðslu. Þótti n. eðlilegt að orða þetta þannig : „Ef lögð er niður landbúnaðarframleiðsla eða störf fyrir landbúnaðinn á eignum þeim, er veðsettar eru ræktunarsjóði“ — Þótt einhver lántakandi hverfi frá landbúnaðarframleiðslu og annar komi í hans stað og haldi áfram, verður ástæðulaust að segja upp láninu af þeim ástæðum, og af þeim ástæðum hefur n. lagt til að orða þetta eins og hér er gert.

Loks er síðasta brtt. n., við 20. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að l. öðlist þegar gildi. Í frv. er gert ráð fyrir 1. janúar 1947 og að sjóðurinn taki til starfa eigi síðar en 1. okt. það ár. En n. varð sammála um að fella þessa gr. niður, án þess að nokkuð kæmi í staðinn, þar sem ég geri ráð fyrir, að þetta gæti komið til framkvæmda innan þriggja mánaða frá því að frv. yrði að l. Hefur verið rætt um þetta við bankastjóra Búnaðarbankans, og telur hann, að þessi lánsstofnun gæti tekið til starfa á miðju þessu ári og því óþarfi að kveða á um það sérstaklega í l., hvenær ræktunarsjóður þessi taki til starfa, og því leggur n. til, að gr. falli niður.

Ég hef þá stuttlega gert grein fyrir brtt. n., og skal engu við það bæta. Ég skal aðeins geta þess, að n. mun athuga frv. einhvern tíma milli 2. og 3. umr. til að ræða möguleika á fleiri brtt., þótt engar ákvarðanir hafi verið teknar um það enn þá. N. leggur sem sagt til, að frv. fái að fara gegnum þessa 2. umr. með þeim breyt., sem hér liggja fyrir á þskj. 436.