11.04.1947
Neðri deild: 110. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

221. mál, bifreiðaskattur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Mér kemur einkennilega fyrir það atriði hjá hæstv. fjmrh., þegar hann segir, að bifreiðaskattinum verði ekki velt yfir á alþýðuna í landinu eða neytendurna. Nú er gert ráð fyrir því, að hinum sköttunum eða tollunum verði velt á neytendurna. Heildsalarnir eiga engu að tapa og ekkert að leggja fram, en svo þegar kemur að þeim mönnum, sem hafa það fyrir atvinnu að aka bifreiðum, þá á ekki að velta skattinum á neytendur, heldur á hann vist að leggjast á herðar bifreiðarstjóranna eingöngu.

Þetta getur ekki gengið, það verður úr því að skera, hvort ríkisstj. ætlar sér að láta bifreiðaskattinn og benzínskattinn stöðvast á bifreiðastjórunum, en veita heildsölunum rétt til að velta öllum tollunum yfir á neytendurna. Þetta verður að koma greinilega fram frá hæstv. ríkisstj., og ef þetta reynist vera ætlunin, þá verður að fyrirbyggja slíkt.