09.05.1947
Neðri deild: 125. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (3059)

71. mál, ræktunarsjóður Íslands

Pétur Ottesen:

Það þarf ekki að svara því, sem þm. A-Húnv. sagði, því að ég er búinn að reyra svo að honum möskvann, með hans eigin orðum, að hann getur ekki hreyft sig. Um það, að ég ráði einhverjum ósköpum á búnaðarþingi, þó að ég sé þar fyrsti eða annar varaforseti, þá er það bara misskilningur.

Það er hins vegar ekkert undarlegt, þó að búnaðarþing gangi lengra í kröfum sínum en Alþingi getur fallizt á, því að búnaðarþing er stéttarþing og því ekki nema eðlilegt, að það geri kröfur fyrir sína stétt, en hitt er allt annað mál, hvað Alþingi getur gengið langt á móti þeim kröfum. Og hér strandar einmitt á því, að meiri hl. Alþingis telur sér ekki fært að ganga lengra en í frv. felst, en það er engin ástæða til þess að deila á búnaðarþing, þó að það gangi lengra í kröfum sínum.