16.05.1947
Efri deild: 133. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í B-deild Alþingistíðinda. (3067)

71. mál, ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er ekki nýtt fyrir þm., og enda þótt það hafi ekki komið fram fyrr í þessari d., þá var sams konar frv. í Nd. og athugað þar og rætt að nokkru. Nú er þetta frv. borið fram af landbn. Nd. og vaxið upp af því samkomulagi, sem varð með ríkisstj., er hún gekk til sambúðar í vetur, og er einn af þeim kvistum og ekki sá lakasti, sem þar hafa sprottið upp. Þá lá fyrir áður fyrr mjög rækileg grg. frá nýbýlaráði og nefndum um þetta mál, er þm. hafa flestir kynnt sér, þó að nú sé liðið nærri ár síðan það var hér á ferð, og sé ég því ekki ástæðu til að fara ýtarlega út í frv., enda mörgum það kunnugt. Í gegnum Nd. fór það með nærri shlj. atkv., enda þótt einstaka menn vildu gera nokkrar breyt. á því. Okkur nm. í landbn. fannst það meira um vert að koma málinu fram, þannig að það gæti orðið að l., en að athuga örlitla smíðagalla, sem á því kunna að vera, og verða til trafala fyrir frv. Enda er það svo um flest stærri mál, það er reynslan, sem sker úr, hvort ágallar eru á málinu, og ef þeir finnast, þá eru þau lög endurskoðuð og þeim breytt í betra horf.

Í fáum orðum er þetta aðalefni laganna að taka til stofnfé fyrir ræktunarsjóð þann, sem hefur stutt landbúnaðinn nokkuð með lánum. Stofnféð er Ræktunarsjóður Íslands og varasjóður hans, og einnig hluti sá, sem við hann hefur verið lagður af viðlagasjóði. Þá eru og eftirstöðvar af loðdýralánadeild. Þessar upphæðir allar munu vera um 5½ millj. kr., en í reiðu fé er þó ekki meira til að byrja með en rúmlega 2 millj. Þess vegna þarf sjóðurinn að afla sér meira fjár, til þess að hægt sé að starfa, og tekið er fram í 8. gr. laganna, hvernig skuli afla meira fjár, og er ætlazt til, að sú upphæð verði allt að 10 millj. kr. Verður stofnfé þá alls hálfur annar tugur milljóna. Enn fremur er í 3. gr. lagt svo fyrir, að í 10 ár leggi ríkissjóður fram hálfa milljón króna. Þetta verður ca. 20 milljónir kr. Þessu fé á svo að verja til þess að lána út um landið, bæði til jarðræktar, peningshúsa og geymsluhúsa og annarra mannvirkja við landbúnað, og enn fremur jarðyrkju, vermiræktar o. fl. Lánstími verður 5–25 ár, en gert er ráð fyrir, að útlánsvextir verði ekki meiri en 2½%. Fyrst verður að lána bráðabirgðalán, og er þá gert ráð fyrir hærri vöxtum. Stjórn á þessum útlánasjóðum verður undir Búnaðarbanka Íslands, enda þótt tillögur nýbýlastjórnar ráði miklu.

Ég þarf ekki að flytja langt mál um þetta, en eins og það liggur hér fyrir, sjá allir, að hér er verið að vinna til stórra hagsmuna fyrir landbúnaðarmenn, sem og aðra, er einhverja jarðrækt hafa. Það er orðið svo dýrt að byggja peningshús, að menn geta ekki risið undir því nema fá hagkvæm lán, og þau er ekki hægt að fá, eins og nú standa sakir og hagur lánsstofnana virðist vera nú. Þess vegna er það eina úrræðið, ef ekki á að stöðva að verulegu leyti allar byggingar á útihúsum og stærri mannvirkjum til jarðræktar, að hreyfa við þessu máli og setja þar nýtt blóð í, og það virðist mér vera gert með ræktunarsjóðslögunum. Sumir segja, að féð eigi að vera enn meira, og hv. 8. landsk. sem var í n. hefur komið með brtt., en hinir nm. eru sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. En þessi breyting hefur áður komið að efni til í Nd., og hefur verið hrundið þar. En hitt er annað mál, að það mun vera þörf á að veita meira fé til þessara bygginga en gert er ráð fyrir í sjálfu frv. En það verður að líta til þess, hvað lánsstofnanirnar megna og hvað má hart að ganga á þessum tíma. Okkur nm. öllum virðist, að hér sé á ferð lagasmíð til stórra umbóta, og gæti alls ekki komið til mála að fara að bregða fæti fyrir þetta frv., jafnvel þó að það séu eitt eða tvö atriði, sem ekki næst samkomulag um, og ég held, að óhætt sé að segja fyrir hönd okkar allra, að við mælum eindregið með því, að frv. sé afgr., þó að þessi eini nm. óski smávægilegra breytinga. En eins og sakir standa nú, legg ég eindregið móti því, að breyt. hans á þskj. 849 verði samþ.