16.05.1947
Efri deild: 133. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1796 í B-deild Alþingistíðinda. (3068)

71. mál, ræktunarsjóður Íslands

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og nál. ber með sér, áskil ég mér rétt til að bera fram brtt. við frv. eða fylgja öðrum breyt., sem kynnu að koma. Í samræmi við það flyt ég 2 brtt. á þskj. 849. Hin fyrri er að taka í frv. grein, sem upphaflega var í því, þegar það kom til þingsins í fyrra vetur frá nýbyggingarráði, því að eins og kunnugt er, var frv. upphaflega samið af nýbyggingarráði og komst áleiðis á þinginu í fyrra, þó að það næði ekki fullri afgreiðslu. 4. gr. var þá mjög mikils verð fyrir landbúnaðinn, sem sé að Búnaðarfélag Íslands og nýbyggingarráð, eins og það var þá orðað, en ég hef nú breytt í fjárhagsráð, skyldu gera rannsókn á ástandi og þróun landbúnaðarins og gera áætlun um þróun hans í náinni framtíð. Það er nauðsynlegt að gera áætlun um þróun landbúnaðarins og fyrst og fremst sjá svo um, að þörfinni innanlands verði fullnægt, en síðar mun framtíðin sýna það, að nauðsynlegt er að afla markaða erlendis. Þegar þetta frv. var fyrir Nd., þá kom þessi brtt. fram, en var felld, ekki vegna þess, að þm. væru á móti henni út af fyrir sig, heldur vegna þess, að þeir, sem andstæðir voru því, að hún væri höfð í þessu frv., töldu hana eiga heima í frv. um fjárhagsráð. Nú hefur sú leið verið felld, og þess vegna vil ég freista þess að koma þessari gr. hér inn, því að ég get ekki fallizt á, að hún eigi ekki heima í lögum um ræktunarsjóð, og ef hún væri sett inn í þessari hv. d., þá mætti vona, eftir því sem fram hefur komið,. að hún mundi ganga í gegnum Nd.

Hin brtt., sem ég flyt, er við 8. gr. frv. og þess efnis, að í stað 10 milljóna komi 20 milljónir, en það er sú upphæð, sem skuldir ræktunarsjóða mega nema. Ég vil sérstaklega benda á, að miðað við verkefni ræktunarsjóðsins, sem talin eru upp í 4. gr. frv., þá sér hver og einn, sem kunnugur er þessum málum, að 10 millj. eru allt of lítið fé, og því til stuðnings má benda á samþykkt búnaðarþings, sem gerði kröfur til helmingshækkunar, en þeir fulltrúar, sem þar sitja, vita um þörfina. Sömuleiðis lagði búnaðarþing til, að árlega framlagið úr ríkissjóði væri hækkað úr ½ millj. í 2 millj. Þess vegna skil ég ekki, að það skuli vera fulltrúi á búnaðarþingi, sem mælir á móti þessum till. mínum hér.