16.05.1947
Efri deild: 133. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1797 í B-deild Alþingistíðinda. (3071)

71. mál, ræktunarsjóður Íslands

Pétur Magnússon:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. lagði mikla áherzlu á, að þessu máli væri ekki teflt í tvísýnu, og ég get tekið það fram, að það er ekki mín ætlun að tefla málinu í neina tvísýnu, en hins vegar eru ýmis efnisákvæði í frv., sem ég tel mjög vafasöm, og jafnvel hæpið, að sum þeirra geti staðist. Ræktunarsjóðurinn hefur verið sjálfstæð stofnun, sem hefur lánað út á fasteignir, en nú er gert ráð fyrir að lána líka rekstrarlán og veita lán til vélakaupa. Ég álít mjög vafasamt, að þetta sé heppilegt, því að með því að lána til rekstrar eru lánin orðin áhættulán. Þetta er líka þeim mun hættulegra, þegar tímarnir eru jafnóvissir og nú er, og það er meira að segja hægt að hugsa sér, að breyting á verðlagi gæti riðið sjóðnum að fullu. Það er áreiðanlega ekki æskilegt fyrir íslenzkan landbúnað, að sjóðurinn líði undir lok.

Mér þykir dálítið ósamræmi í því, sem 1. þm. N-M. sagði, að það biðu margir eftir láni úr sjóðnum, og svo hins, að sjóðurinn hefur engin skuldabréf í veltunni og fé hans er ekki einu sinni allt í láni, þar sem hann hefur heimild fyrir útgáfu á 20 millj. kr. í skuldabréfum.

Eins og ég tók fram, er síður en svo, að ég vilji setja mig á móti frv., en ég vil bara benda á það, hvort það sé vilji þm. að gera ræktunarsjóðinn að áhættulánsstofnun. Þá vil ég sérstaklega vekja athygli á 8. gr., því að mér virðist hún vera hreinn óskapnaður og þess alls ekki gætt að hafa samræmi, og satt bezt að segja, þá er gr. svo torskilin, að það er ekki neinn meðalgreindur maður, sem kemst fram úr henni. Það er t. d. hvergi gert ráð fyrir því í frv., hvar á að taka þann vaxtamismun, sem hlýtur að verða milli útlánsvaxtanna, sem gert er ráð fyrir, og þeirra vaxta, sem hugsanlegt er að fá féð fyrir. Sennilega er hugsunin sú, að ríkissjóður greiði mismuninn og afli fjárins, en ef svo er, þá er bezt að segja það berum orðum. Þá er alls ekki hægt að gera sér fyllilega ljóst, til hvaða rekstrar má lána, hvort það er til véla eða túrbínurafstöðva. Ég vildi fá nánari skýringu á því hjá n., hvernig á að framkvæma þetta ákvæði. Ef við höldum áfram, þá stendur m. a. þetta: Seðladeild Landsbankans veitir lánin í opnum reikningi. Ég gizka á, að hér sé meint, að lánin skuli veitt smám saman, eftir því sem ræktunarsjóður þarf á að halda. En því ekki að segja þá, að lán skuli veita smátt og smátt? Hvers vegna endilega þetta orðalag, sem enginn skilur? Svo stendur: Ræktunarsjóður skal endurgreiða seðladeild Landsbankans lán þessi jöfnum afborgunum á 10 árum. Þó má skuld sjóðsins við seðladeildina aldrei vera hærri en 10 millj. kr. Við hvað á þetta þá? Það hefur ekkert komið sem bendir til þess, að lánin eigi eða megi fara yfir 10 millj. kr. Ég get svo ekki verið að orðlengja um þetta frekar. Gr. er öll á sömu bókina lærð, og það er nauðsynlegt að taka þessa gr. sérstaklega fyrir og semja hana upp, svo að menn geti skilið, við hvað er átt í henni. Eins og gr. er nú orðuð, get ég ekki séð, hvað á að felast í henni. Ég gæti haldið áfram með tilvitnanir í þetta lagasmíð, ef ég kærði mig um. Í 9. gr. er gefin heimild til að gefa út handhafavaxtabréf, ef stofnfé hrekkur ekki til lánveitinga. Í 2. gr. er svo sagt frá, hvert stofnféð sé. En svo er gert að lagaskyldu að taka 10 millj. kr. lán. Hvað á þá þetta með stofnféð að þýða? Það gæti kannske verið sjálfsagt að taka upp vaxtafót. Nú er vitanlegt, að ræktunarsjóður hefur allmikið stofnfé, og það skal aukið verulega með ákv. 3. gr. Þetta er kannske ástæðan fyrir því, hverjir vextirnir eiga að vera af þeim lánum, sem sjóðurinn veitir vegna sölu á vaxtabréfum, því að hann getur lækkað vexti mikið vegna hinna miklu sjóðseigna, sem ekki þarf að reikna nema lága vexti af. Svo vil ég benda á 11. gr. Þar er eitt ákvæði, sem ég tel mjög vafasamt. Þar er heimilað að lána til túnræktar og nýrra bygginga til allt að 25 ára, og svo til framkvæmda við vermirækt, sem varanlegar teljast. Ég játa, að ég er ekki nægilega heima í þessum atvinnurekstri. En þegar talað er um að veita lán til gróðurhúsabygginga til 25 ára, þá held ég, að ending húsanna sé ekki svo mikil, að það væri ekki varasamt. Ég þykist hafa leitt rök að því, að 8. gr. sé þannig orðuð, hvað efnisákvæði snertir, að vafasamt sé fyrir þingið að samþykkja hana, eins og hún er nú. Það er nauðsynlegt að breyta frv., enda sé ég ekki, að því sé stofnað í hættu, þótt gr. þessar verði lagaðar. Það mun ekki vera komið svo nærri þingslitum, að málið geti ekki fengið eina umr. enn í hv. Nd.