16.05.1947
Efri deild: 133. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (3072)

71. mál, ræktunarsjóður Íslands

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Það, sem ég átti við með því að óska eftir, að málinu væri ekki stefnt í tvísýnu, var það, að á því væri ekki gerð efnisbreyt., sem raskaði samkomulagi því, sem gert hefur verið um samþ. þess. Hitt er annað mál, að formbreytingar geta komið til greina, svo sem lagfæringar á orðalagi, án þess að málinu sé stefnt í tvísýnu. Hv. 1. þm. Reykv. taldi varhugavert að færa starf ræktunarsjóðs eins víðtækt út og gert er ráð fyrir í 4. gr. frv. Það má vel vera, ef fé sjóðsins reynist of lítið til þess að sinna þessu verkefni og ekki tekst að afla honum meira fjár, að þá megi segja, að það hafi verið varhugavert að færa svo starfsemina út. Hinu er ekki hægt að mæla á móti, að þess er full þörf að auka lánastarfsemi til framkvæmda, sem taldar eru upp í 4. gr. Ég vil geta þess, þar sem ég veit ekki, hvort hv. þm. hefur veitt því athygli, að það er gert ráð fyrir því, að þegar lánað er úr sjóðinum til búfjárkaupa, þá sé tryggt með fasteign, svo að yfirleitt er um fasteignaveð að ræða, nema þá til vélanna. Annars fannst mér gæta nokkurra útúrsnúninga í ræðu hv. þm., þegar hann fór að gagnrýna 8. gr. Því er ekki að neita, að ég hef ekki verið ánægður með orðalag hennar, en ég sá hana fyrst fyrir ári, þegar þáv. landbrh., hv. 1. þm. Reykv., sendi mér frv. Þegar það var rætt í landbn. Nd., þá var frvgr. eins og hún er nú, bæði að efni og formi, nema fyrstu 2 línurnar. Og ég verð að segja, eins og hann, að mér fannst gr. klúðursleg. En svona var gengið frá henni í nýbyggingarráði. Ríkisstj. sendi okkur gr. svona í landbn., og ekki var horfið að því að breyta henni frá því, sem hún kom fyrst í hendur okkar þar. Hins vegar veit ég ekki, hvort hv. þm. hafði lesið gr., áður en hann sendi okkur hana. Nú er gr. mjög lítið breytt, aðeins skeytt saman tveimur atriðum, og má vera, að það sé ekki gert eins liðlega og mætti vera. En það komu fram tvö sjónarmið í n. Annað var það að halda við ákvæði frv. eins og það upphaflega var samið. Aðrir litu svo á, að réttara væri að afla sjóðnum þessa lánsfjár á annan hátt, þannig að ríkissjóður tæki að sér að afla fjár til sjóðsins beint, en Landsbankanum sleppt undan þeirri kvöð, sem á hann er sett í fyrsta hluta gr. Hv. þm. talaði um, hvernig ríkissjóður ætti að útvega lán með svo lágum vöxtum, án þess að ríkissjóður greiddi sjálfur vaxtamismuninn. Ég veit ekki, hvort ég má geta þess hér, en ég hélt það væri öllum vitanlegt, að á leiðinni er frv. um eignakönnun, og gert er ráð fyrir því, að í gegnum hana geti farið svo, að ríkið fái allmikið fé með lágum vöxtum. Það er hugsað þannig, að af þessu fé geti ræktunarsjóður fengið lán hjá ríkissjóði, ef það reynist svo mikið, að hægt sé að verja því til þess. En ef þetta tækist ekki, þá á að geyma upphaflegu kvöðina á landsbankanum. Það er að vísu rétt, að þetta horfir að vissu leyti öðruvísi við nú en þegar frv. var samið, þar sem Landsbankinn átti þá meira af gjaldeyri en nú. Frv. var lagt fyrir nærri óbreytt, eins og það kom frá nýbyggingarráði. Þegar samið var um myndun núv. ríkisstj., þá var samið um það, að þetta frv. næði fram að ganga í aðalatriðum eins og það var lagt fyrir þingið í fyrra haust. Það var litið svo á, að frv. þetta væri svo vel úr garði gert hjá þeirri stofnun, sem frá því hafði gengið, að ekki væri ástæða til að raska efni þess eða formi í neinu verulegu atriði. Það er því skiljanlegt, að landbn. Nd. hafi ekki viljað raska efni frv. að neinu leyti varðandi það, sem um var samið. En persónulega skal ég játa, að þessi gr. er mjög óljóst orðuð, þótt ég geti skilið meiningu hinnar, og það mætti orða hana betur. Ég vil ekki leggja áherzlu á, að henni verði breytt. En hins vegar get ég fallizt á umorðun gr., ef hv. d. telur það nauðsynlegt og svo framarlega sem það raskar ekki aðalefni gr.: að sjóðinum sé séð fyrir þessu láni og með þessum vöxtum, sem fram er tekið þar. Um það hefur verið samið og á þeim forsendum hefur frv. verið tryggt fylgi.