16.05.1947
Efri deild: 133. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (3073)

71. mál, ræktunarsjóður Íslands

Ásmundur Sigurðsson:

Ég ætla fyrst að víkja að ummælum hv. 1. þm. N-M., þótt hann segðist vera mér sammála. Hv. þm. sagði um fyrri brtt. mína, að bændur ættu sjálfir að skipuleggja framleiðsluna. Ég vil benda á, að bændur geta ekki eingöngu sjálfir skipulagt framleiðsluna. Þeir þurfa að fá aðstoð frá hinu opinbera til þess. Ég vil benda á, að þar sem þessi stofnun, fjárhagsráð, á að hafa með höndum skipulagningu annarra framkvæmda í landinu, þá er það ekki nema eðlilegt, að hún skipuleggi landbúnaðarframleiðsluna.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að efni brtt., sem ég flyt, væri í 5. kafla 2. gr. í frv. um framleiðsluráð. Þetta er ekki rétt. Þessi 5. liður hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta : „að vinna að því að beina framleiðslu landbúnaðarins að þeim framleiðslugreinum, sem landbúnaðinum eru hagfelldastar og samrýmast bezt þörfum þjóðarinnar á hverjum tíma“. Í þessu er aðeins brot af því, sem er í minni till. Það er ekkert um það, að haga skuli lánveitingum til landbúnaðarins í samræmi við áætlun, sem á að gera. Og ég veit ekki til þess, að framleiðsluráð eigi að hafa með lánveitingar að gera. Fleiri dæmi mætti nefna, sem sýndu, að efni brtt. minnar er að sáralitlu leyti í þessu frv., svo að það eru ekki gild rök að neita að taka brtt. inn í frv. vegna þessarar ástæðu. Hitt vil ég taka fram, að ég mun fylgja þessu frv., þótt þessar brtt. verði felldar. Og verði þetta fellt, mun ég reyna að fella þetta ákvæði inn í frv. um framleiðsluráð, þegar það kemur fram á sínum tíma.

Annað, sem hv. þm. minntist á, var varðandi hið aukna fjármagn, sem ætlað er til þessara framkvæmda og sagði, að ekki væri ástæða til að fara lengra í þeim efnum, meðan svona væri ástatt í fjármálunum, sem nú er. Ef ég hef skilið hv. þm. rétt, þá álítur hann þó eins og ég, að full þörf sé á að fá rýmri fjárráð í þessum efnum, en telji ástandið bara ekki leyfa það nú. Ég tel að ástandið í fjármálunum sé ekki slæmt og tel glæsilegar vonir fram undan. En hins vegar skal ég ekki fara út í það nú.

Þá vildi ég enn fremur segja örfá orð við hæstv. landbrh., og þykir mér leitt, að hann skuli ekki vera viðstaddur. Hæstv. ráðh. hefur aðallega borið það fyrir sig, að búið hafi verið að semja um málið við myndun núv. ríkisstj., eins og það var lagt fram. Ég vil benda á, að núv. stjórn var mynduð áður en búnaðarþing var haldið. Mér finnst því, að það hefði verið eðlilegra, að hæstv. landbrh., sem einnig er form. Búnaðarfélagsins, hefði sagt búnaðarþingi frá því, að búið væri að semja um málið, eins og það lá fyrir, og hefði þannig losað Alþ. við það að fá samþ. frá búnaðarþingi um hækkun á þessari upphæð. Ég veit ekki betur en að flokksbræður hæstv. landbrh. séu í meiri hl. á búnaðarþingi, og hefði því hæstv. ráðh. áreiðanlega getað sannfært búnaðarþing um það, að það þýddi ekki að senda Alþ. áskoranir sem þessar.