20.05.1947
Efri deild: 138. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1821 í B-deild Alþingistíðinda. (3132)

116. mál, nýjar síldarverksmiðjur á Norðurlandi

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hef skrifað undir nál. á þskj. 880 með fyrirvara, og minn fyrirvara er að finna í brtt. á þskj. 871. Það var mjög velt vöngum um þetta mál í virðulegri sjútvn., og mér kom ekki á óvart ræða hv. frsm. Hygg ég, að hún hafi verið sá bezti rökstuðningur fyrir þeirri till., sem ég flyt, því að hans skoðun á málinu er sú, að það eigi ekki að leggja svo mikla áherzlu á að byggja þarna verksmiðju, eins og til er ætlazt, með undirbúningi á yfirstandandi ári og hefja framkvæmdir á næsta ári. Ég hygg, að meiri hl. n. hafi í raun og veru verið þessarar skoðunar, enda kemur það fram í till. okkar, mín og hv. 1. þm. Reykv., að við teljum ekki rétt, eins og stendur, að fyrirskipa ríkisstj. eða verksmiðjustjórn, sem mundi inna þetta starf af höndum, án þess að á undan færi fullkomin athugun á því, hvort þetta er kleift. Það varð sú breyt. á þessu, að frsm. n. og form, hefur tekið þann kostinn að vera með frv., eins og það liggur fyrir og með því orðalagi, sem á því er, að hefja framkvæmdir á árinu 1948. Hins vegar er vitanlegt, að sjútvn. Nd. vildi ekki ganga lengra en það að setja inn í síldarverksmiðjul., að það skuli taka inn verksmiðju sunnan Langaness á Norðausturlandi með 5000 mála vinnslumöguleikum. Gegn þessu hefur stjórn verksmiðjanna lagt fram allþung rök, sem sjá má sem fskj. í nál. sjútvn., og ýmis önnur rök, sem ekki koma þarna fram, en komu fram í viðræðum við meiri hl. verksmiðjustjórnar á fundi n. En hvað sem því líður, þá skil ég það vel, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins vill vera mjög varfærin í því að ráðast í fleiri verksmiðjubyggingar, eins og sakir standa, fyrr en séð er á þessu sumri, hvernig síldarvertíð kemur til með að koma út. Eins og kunnugt er, hvílir nú sá baggi á verksmiðjunum að standa undir afborgunum og greiða vexti af ekki minna en 50 millj. kr., og vitanlega verður þessi baggi að leggjast á útvegsmenn og sjómenn, sem síldveiðar stunda, og þar af leiðandi hefur það áhrif á síldarverðið. Þessi gífurlegi kostnaður, sem orðinn er við að byggja síldarverksmiðjur, hlýtur að stafa af tvennu: Lækkuðu meðalverði á síld án hagnaðarmöguleika fyrir þá, sem hafa gamlar verksmiðjur, og ódýrar verksmiðjur, sem skapa þetta almenna verðlag og borga ekki verð til þeirra, sem kaupa síld. Það eru þessi rök, sem gera það að verkum, að við þm. viljum vera mjög varfærnir í þessum efnum að reisa nú fleiri verksmiðjur að lítt athuguðu máli. Ég skal fúslega viðurkenna, að það er ekki nema eðlilegt, að Austfirðingafjórðungur óski þess, að þar verði reist verksmiðja. Þar er vaxandi útvegur með skipum, sem stunda síldveiðar, og hver fjórðungur vill vera sem næst sínum heimastöðum til þess að geta afsett afla sinn. Nú er það svo, að það er talið, að vinnslugeta allra verksmiðjanna, sem nú eru til og eiga að verða til fyrir næstu síldarvertíð, nemi um 70 þús. málum á dag, og ef við reiknum með 40 vinnsludögum á síldarvertíð, þá eru þetta upp undir 3 millj. mála, sem hægt er að veiða á flotanum. Þeir í verksmiðjustjórninni færa rök fyrir því, að skipakostur landsmanna sé ekki nú meiri en það, að verksmiðjurnar þurfi hans full not. Þetta eru þau rök yfirleitt, sem hníga að því, að menn vilja vera varfærnir í þessum efnum. Ég skal líka geta þess, að síld er misjafnlega verðmæt eftir því, hvar hún veiðist. Síld austan Langaness hefur minna fitumagn en síld, sem veidd er á Húnaflóa. Nú segi ég ekki, að það eigi að hverfa frá því, þó að síldin sé magrari á þessum slóðum, að reisa verksmiðju á þessum stað, því eins og hv. þm. N-Þ. benti á, þá hefur reynslan af verksmiðjunni á Raufarhöfn verið svo góð, að síldarafli landsmanna mundi mörg árin hafa verið mjög miklu minni, ef hennar hefði ekki notið við, og ég var á sínum tíma stuðningsmaður þess, að Raufarhafnarverksmiðjan væri keypt. Nú er meiningin hjá ríkisstj. og verksmiðjustjórn, að jafnvel fyrsta aukningin verði einmitt stækkun verksmiðjunnar á Raufarhöfn, og það væri ekki óeðlilegt, þó að Raufarhafnarverksmiðjan væri stækkuð upp í 10 þús. mál.

Eins og sagt hefur verið, þá er þessi till. um síldarverksmiðju fram komin til þess að reyna að skapa atvinnulíf á þessum stöðum. Í öðru lagi vilja þeir, sem eiga skipin á þessum stöðum, gjarnan losna við síldina ekki mjög fjarri sínum heimastöðvum. Ég lít svo á, að það sé ekki nema einn staður á Austurlandi, sem eigi að koma til greina. Það er Seyðisfjörður. Sá staður hefur sjálfgerða höfn, og ætti því að verða lítill kostnaður við hafnarmannvirki. Þar er góð bryggja, svo að þar er hægt að leggja að skipum til þess að losna við sílina, og í öðru lagi er þar vatnsleiðsla og rafmagnsveita. Nú er hugsun mín sú, að rannsakaðir séu allir möguleikar í sambandi við byggingu slíkrar verksmiðju, í fyrsta lagi, hvaða líkur eru til, að hægt sé að reka slíka verksmiðju með góðum árangri, að hún skili því, sem aðrar verksmiðjur geta skilað, með nægilegu vinnslumagni, og annað, sem hv. þm. N-Þ. minntist á, að það er ekki hægt að taka eitt ár til marks um það, hvar vinnslumagnið liggur frá ári til árs. Því hefur verið haldið fram, að órannsakað sé austurhafið milli Noregs og Íslands og þar sé um mikla síldveiði að ræða, sem ekki hafi verið notuð. Ég álít, að rannsókn eigi að fara fram á því, hvað mikið sé upp úr þessu leggjandi að leita eftir síld á þessum austurslóðum. Sú skýrsla, sem hér liggur fyrir um veiðina á Austurlandi, sýnir ekki rétta mynd af síldveiðunum þar. En meðan ekki liggur fyrir þessi athugun, tel ég ekki rétt að fara að byggja 10–15 þús. mála verksmiðju. Ég þykist nú hafa fært nokkur rök að því, hvers vegna ég flyt þessa brtt. á þskj. 871.