20.05.1947
Efri deild: 138. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (3135)

116. mál, nýjar síldarverksmiðjur á Norðurlandi

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Það hafa komið fram ýmis rök móti því hér að ákveða í l. byggingu verksmiðju á þessu svæði og taka fram beint í l., að undirbúningur skuli hafinn og byggingarframkvæmdir hafnar á næsta ári. Ég sé ekki, að ákaflega mikill eðlismunur sé, hvor till. sem verður samþ. Ég held, að við þurfum ekki að líta langt til baka til að fullvissa okkur um, að daglega eru samþ. hér l., þar sem ríkissjóður er bundinn milljónaframkvæmdum og jafnvel án þess, að það sé tekið upp í fjárlögin. Það liggja hér frv. um að leggja 500 þús. í þetta eða hitt, og m. a. eitt frv., sem ætlazt er til, að verði að l., þar sem ákveðið er, að 500 þús. eigi að leggja í ákveðið fyrirtæki næstu 10 árin, hvort sem nokkur möguleiki er til þess eða ekki. Frá því sjónarmiði sé ég. ekki, að síldarverksmiðjur ríkisins eða hæstv. ríkisstj. á hverjum tíma sé meira bundin af þessum fyrirmælum, ef framkvæmd er ógerleg, en af mörgum öðrum, sem gerð eru í sambandi við ýmis önnur mál. En þetta er það eina, sem tryggir, að eitthvað verði gert og það verði a. m. k. hafizt handa um undirbúning. Það má segja, að þetta verði alveg eins gert, ef samþ. er till. minni hl. n. En þar liggur sú hætta í, að þá nái málið sjálft ekki fram að ganga. Þessi till., sem hér kom fram, breytir þó enn frv. og á kannske ekki nægilegu fylgi að fagna í Nd., til þess að frv. verði þannig samþ. þar, og þá kemur frv. hingað aftur og dagar svo uppi, áður en þingi lýkur. Það er þetta, sem vakir fyrir mér, þegar ég vil ekki leggja til, að breyt. sé gerð á frv. Einnig legg ég mjög upp úr því, að þegar verði hafizt handa um rannsókn á, hvar verksmiðjan skuli standa og hver kostnaður muni verða. Það er að vísu ætlazt til, að gert verði, eftir till. minni hl. En það er enn meiri áherzla lögð á það, að því verði hraðað, ef framkvæmdir eru ákveðnar 1948. Ég get ekki hugsað mér, að neinn ráðh. taki á sig þá ábyrgð að láta þjóta í framkvæmdir á árinu 1948, nema því aðeins að málið sé gerhugsað og gerundirbúið, eftir þá sorglegu reynslu, sem fengizt hefur í þessu máli, sem raun ber vitni um á Skagaströnd og Siglufirði. Þá er það alveg sama frá mínu sjónarmiði í höndum framkvæmdarvaldsins, hvort frv. fer í gegn eins og lagt er til af meiri hl. eða með þeim breyt., sem minni hl. ætlast til, að gerðar verði. Hitt er annað mál, og um það má deila, að ef frv. þetta væri samþ. eins og það var afgr. frá hv. Nd., þá gengi þessi verksmiðja fyrir þeim, sem þegar eru fyrir í l., en ef till. minni hl. er samþ., þá segir þar ekkert um, að þessi verksmiðja skuli ganga fyrir, heldur aðeins, að tæknilegum undirbúningi skuli lokið eins fljótt og unnt er.

Ég tel, að ýmis rök hnígi að því, að byggja skuli verksmiðjuna. Í fyrsta lagi er, að því stærra sem veiðisvæðið er, því betra, og við byggingu 5000 mála verksmiðju stækkar veiðisvæðið raunverulega, þ. e. a. s. möguleikarnir fyrir flotann til að nota stærra veiðisvæði verða meiri en ef notazt væri eingöngu við verksmiðjuna á Raufarhöfn, og einmitt af því að nótunum fjölgar, er ef til vill mest aðkallandi að stækka veiðisvæðið. Því fleiri nætur sem eru á óbreyttu veiðisvæði fyrir norðan, því minni meðalveiði.

Þá er annað atriði, og það er, að vitað er, að á Seyðisfirði veiðist oft síld á haustum og fram á vetur, og fyrir stríð var hún flutt þaðan út í ís til Þýzkalands, og enginn vafi er á því, að það er hægt í stórum stíl, þegar veiðin er á annað borð, og í sambandi við það er óhjákvæmilegt að hafa verksmiðju til að taka við því, sem ekki er flutt út og ekki saltað. Tökum t. d. síldveiðina í vetur í Faxaflóa. Hve mikið tapaðist við það, að ekki var hér verksmiðja til að taka við síldinni, og var það þó verri síld en veiðist fyrir norðan? Samt var ráðizt í að flytja hana í bræðslu norður til Siglufjarðar um hávetur, þó að fitumagn hennar væri ekki nema rúmur helmingur á móts við Norðurlandssíldina. Þó að hér hefði þá aðeins verið 2000 mála verkamiðja, hefði veiðin orðið miklu meiri. Ég held því, að þótt talað sé um, að vafasamt sé að byggja fleiri verksmiðjur, þá sé hitt einnig vafasamt að athuga ekki þá staði, þar sem síld veiðist á vissum tímum árs. Hver verksmiðja verður að byggjast upp með það fyrir augum, að hún beri sig, og þó að mikil síld berist ekki í einu á land á sama staðnum, þá gæti langur vinnslutími vegið þar á móti og þannig unnizt upp. Ég legg því eindregið til, að frv. þetta verði samþ. eins og það kom frá Nd. Þetta yrði mikið á valdi ráðh. og hann hefur lýst yfir því við mig sem form. n., að þó að ekki yrði gert annað en samþykkja till. minni hl., mundi hann láta undirbúninginn fara fram á þessu ári og hefja framkvæmdir á næsta ári, ef tiltækilegt yrði fjárhagslega. Og þegar slíkt liggur fyrir frá honum, sé ég ekki eðlismun á leiðum, annan en þann, að öruggt er, að málið nær fram að ganga nú, ef það þarf ekki að ganga aftur til Nd.