20.05.1947
Efri deild: 138. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1830 í B-deild Alþingistíðinda. (3137)

116. mál, nýjar síldarverksmiðjur á Norðurlandi

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég get upplýst hv. 1. þm. Reykv. um það, að ef frv. hefði komið þannig frá Nd., að aðeins hefði verið ákveðið þar um undirbúninginn, þá hefði ég ekki viljað breyta því. Aðalrökin fyrir því, að ég vil ekki breyta frv. frá því, sem er, eru þau, að ég óttast, að það kynni að falla við þá breyt. En mér er ljóst, að fjöldi l. hefur verið samþykktur þannig, að tekið hefur verið valdið af þinginu og farið allt öðruvísi að en fyrir hefur verið mælt í l. Ég vil t. d. nefna vegaféð. Það kom upp úr kafinu, að samgöngumrh. hafði s. l. ár (með samþykki hæstv. fyrrv. fjmrh. geri ég ráð fyrir) látið eyða tveimur millj. kr. fram yfir fjárlög, á sama tíma og vanrækt var að vinna fyrir eina millj. á öðrum stöðum. Ef þetta er þinglegt, þá sé ég ekki, að það sé dauðasynd, að ráðh. vanræki að láta byggja verksmiðju, ef sjáanlegt er, að sú framkvæmd muni leiða atvinnuvegina í gönur. Ég sé ekki, að slík tilhögun stríði á, móti því, sem er orðin algild regla, sem hver ríkisstj. telur sér heimilt að taka.