21.05.1947
Efri deild: 139. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1836 í B-deild Alþingistíðinda. (3165)

211. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson) :

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta frv. til athugunar. Eins og fram kemur í grg. frv., þá er það borið fram samkvæmt ósk frá félmrn. Frv. er sumpart flutt í tilefni af tilmælum, sem komið hafa frá iðnsambandinu, og sumpart til þess að leiðrétta ýmis ákvæði í núgildandi tollskrá, sem talið er nauðsynlegt að leiðrétta.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fylgja þessu frv. frá hendi n, úr hlaði með ýtarlegri framsögu. N. leggur einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Ég vil endurtaka það, sem sagt er í sjálfri grg. frv., að þótt það sé samþ., þá hafi það svo að segja enga breytingu í för með sér fyrir afkomu ríkissjóðs. Í sumum tilfellum felst nokkur hækkun á tollum, en í öðrum tilfellum, og þau eru fleiri, þó nokkur lækkun. En heildarútkoman á þessu er svo smávægileg, að fullyrða má, að frv. hafi í raun og veru enga breytingu í för með sér fyrir ríkissjóð, hvort sem frv. verður samþ. eða ekki.

Með þessum forsendum vil ég fyrir hönd n. leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.