13.03.1947
Efri deild: 93. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (3172)

192. mál, fyrningarsjóður ríkisins

Frsm. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Eins og getið er um í grg. fyrir þessu frv., þá er það samhljóða frv., sem lá fyrir síðasta Alþ. og var þá flutt að tilhlutan ríkisstj. Ég hygg, að frv. hafi þá ekki mætt neinni mótspyrnu innan þingsins, en samt sem áður varð það ekki útrætt og er nú flutt aftur að tilhlutan hæstv. fjmrh.

Eins og hv. þm. hafa sjálfsagt kynnt sér, þá er lagt til í frv., að allar fasteignir ríkissjóðs skuli færðar á ríkisreikninginn með fasteignamatsverði, en afskriftir af þeim skuli vera 1% af steinhúsum og 2% af timburhúsum. En aðalnýjungin í frv. er falin í 3. gr., þar sem lagt er til, að þessar fyrningar skuli mynda sérstakan sjóð, sem nefnist Fyrningarsjóður ríkisins og á svo aftur að nota til þess að endurbyggja hinar afskrifuðu fasteignir, þegar að því kemur, að nauðsynlegt er að endurbyggja þær. Hugsunin með þessu er sú, að ríkissjóður smám saman komi sér upp byggingarsjóði, sem verði þess megnugur að endurreisa þær opinberu byggingar, sem nauðsynlegt er talið á hverjum tíma, að reistar séu. Þetta virðist vera að því leyti hentug tilhögun, að það verður ekki stór fjárhæð, sem árlega verður veitt í þessu skyni, og sér ekki svo mikið á í útgjöldum ríkisins, en safnast, þegar saman kemur, og verður með þessu móti léttara að endurreisa byggingarnar en ef veita á í einu lagi háa fjárhæð til þess að koma þeim upp. Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta.

Málið er flutt af fjhn. Ed. Ég skal taka það fram, að þegar gengið var frá málinu, var einn nm., hv. 7. landsk., ekki viðstaddur, en ég ætla, að hann hafi léð málinu fylgi sitt á síðasta þingi, en að sjálfsögðu, ef hann hefur sérstöðu, þá á hann kost á að gera grein fyrir því.

Ég sé ekki ástæðu til þess, að málinu verði vísað til n. og geri ráð fyrir, að það haldi sína leið án sérstakrar nefndarskipunar hér.