13.03.1947
Efri deild: 93. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (3174)

192. mál, fyrningarsjóður ríkisins

Frsm. (Pétur Magnússon) :

Það má vel vera, að það sé rétt hjá hv. 1. þm. N-M., að það þurfi að athuga þetta atriði nánar. Út af fyrir sig er það eðlilegt, að ríkisstofnanir fái að bókfæra nýbyggingar með kostnaðarverði. Það liggur í augum uppi, að það getur ruglað mjög hjá þeim reikningana, ef ætti að bókfæra hús með fasteignamatsverðinu einu án þess að gæta að því, hvað miklu munar á fasteignamatsverði og kostnaðarverði eignar. Fyrir ríkissjóð skiptir þetta minna máli. Það er veitt fé á fjárl. til nýbygginga, og það er um svo margar eignir að ræða hjá ríkissjóði, að hann safnar allálitlegu fé í sinn byggingarsjóð, þó að afskriftin sé á þann hátt, sem fyrir er mælt í l. Hjá einstökum stofnunum gæti það hins vegar orðið til þess, að óeðlilegur halli yrði á eignareikningi, ef nýbyggingar yrðu metnar með fasteignamatsverði. En þrátt fyrir þetta getur komið til athugunar, hvort ekki ætti að afskrifa með fasteignamatsverði einnig hjá ríkisstofnunum. Ég er fús til þess að kalla fjhn. saman til að ræða þetta á milli umr.