11.04.1947
Neðri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

221. mál, bifreiðaskattur

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Það er mjög ánægjulegt, að nú skuli hafa komið fram brtt. frá fjhn., sem miða í rétta átt, og ríkisstj. sjá, að henni hefur yfirsézt. Af þessu sést, að það getur verið nokkurs virði að athuga mál í n., einkum ef til þess væri gefinn betri tími, en hér er nú gert. Þessar till., sem hér hafa komið fram. standa til bóta, enda sýnist það sjálfsagt, að skólabifreiðar séu undanþegnar sköttum. Sama er að segja um jeppabíla, sem notaðir eru til jarðyrkju. Með endurgreiðsluna er ég ekki eins ánægður, og geri ég ráð fyrir, að ég tali þar fyrir hönd þeirra, sem hlut eiga að máli, því að sannleikurinn er sá, að það getur tekið nokkuð langan tíma fyrir bónda uppi í sveit að ná á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir, nokkur hundruð krónum úr ríkissjóði. Ég held því, að heppilegra væri, að þessum aðilum væri alveg sleppt við skattinn.

Þá vil ég minnast nokkrum orðum á atvinnubílstjórana. 7. þm. Reykv. vildi meina, að þeir hefðu ástæður til þess að bera þennan aukaskatt, vegna þess að verðið væri svo hátt á bílum og þar af leiðandi munaði þetta svo litlu. Nú er það þannig með bílana, að þar ríkir frjáls samkeppni, en framboðið er takmarkað. Hins vegar er atvinnubílstjórunum nauðsynlegt að hafa góða bíla til þess að verða ekki undir í samkeppninni. en nú er búizt við, að erfitt verði að fá nýja bíla í framtíðinni og þess vegna keppast atvinnubílstjórar við að ná sér í nýja bíla. þó að þeir þurfi að kaupa þá á margföldu verði. Engum getur dulizt, að mikil áhætta er að kaupa nú bíla fyrir kannske 50 til 60 þúsund, eins og gangverð þeirra mun nú vera manna á milli, þegar allt er óvist um það, hvað atvinnan verður lengi eins mikil og hún nú er með þessi tæki. en það er annaðhvort að duga eða drepast. Þó að einstakir menn hafi fengið bíla á réttu verði, þá munu þeir vera hreinar undantekningar.

Þessi aukaskattur, sem með þessu frv. er ætlaður, verður ekki minni en það, að hann nemur um 3 þús. kr. kostnaðarauka á stöðvarbíl, ef allt er talið. Hvar á að taka þetta fé? Hugsar ríkisstj. sér, að gjöld með leigubílum verði hækkuð, eða ætlast hún til þess, að bílstjórarnir taki þetta á sitt bak? Ef svo er, þá nær þessi ráðstöfun ekki nokkurri átt. Það eru til aðrar leiðir, t.d. eru til hér í bæ allmargir bílainnflytjendur, sem grætt hafa hundruð þúsunda á bílainnflutningnum, fyrir utan það, sem þeir hafa grætt á svarta markaðnum. Ef ríkið notaði sjálft þennan gróða, þá þyrfti ekki að gripa til þessa vandræða úrræðis. Sömuleiðis ef ríkið notfærði sér eitthvað af þeim gegndarlausa gróða, sem eigendur viðgerðarverkstæðanna fá í sinn hlut nú, þá mætti með því móti afla mikils fjár. Þá gæti ríkið líka haft stórar tekjur af því að taka í sínar hendur rekstur bifreiða, bæði á sérleyfisleiðum og í bæjarakstri, en þær tekjur renna nú í vasa einstaklinga. Ég held, að þetta yrðu heppilegri leiðir til fjáröflunar fyrir ríkissjóð en sú vandræðaleið, sem ríkisstj. hyggst nú að gripa til.