06.05.1947
Efri deild: 126. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1839 í B-deild Alþingistíðinda. (3181)

192. mál, fyrningarsjóður ríkisins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var fyrst til umr., benti ég á tvö atriði, sem ég bað menn að athuga. Þegar 2. umr. kom, stóð svo á, að ég var í þjónustu fyrir forseta og var ekki staddur í d., meðan málið var afgr. Gat ég því ekki kvatt mér hljóðs til þess að fá nánari upplýsingar um það, sem ég hafði spurt um. Nú langar mig til að árétta það, sem ég spurði um við 1. umr. Ég vil spyrja að því, hvernig stendur á því, að frv. gerir ráð fyrir í 1. gr., að allar fasteignir ríkissjóðs skuli telja til eignar með fasteignamatsverði. Svo segir, að ríkisstofnunum, sem ekki hafi sameiginlegan fjárhag við ríkissjóð, sé heimilt að telja eignir sínar til eignar með kostnaðarverði. Nú er mér ljóst, að sumar stofnanir hafa ekki sameiginlegan fjárhag við ríkissjóð, svo sem landssmiðjan, póstur og sími o. s. frv. Í 2. gr. segir: Árlega ber að fyrna fasteignir ríkissjóðs þannig, að af húsverði þeirra afskrifast af steinhúsum 1% og af timburhúsum 2%. Nú vil ég spyrja, hvernig standi á því, að ekki eru allar fasteignir afskrifaðar af annaðhvort kostnaðarverði eða fasteignamatsverði. Hvers vegna er verið að leyfa þeim stofnunum, sem ekki hafa sameiginlegan fjárhag við ríkissjóð, að afskrifa með kostnaðarverði? Hvers vegna er ekki látið ganga jafnt yfir alla? Ég viðurkenni, að þegar litið er á endingu steinhúsa og timburhúsa, þá er prósentutalan eðlileg og réttlát. En nú hefur þótt eðlilegt að hækka þessa prósentu til skatts, og því þá ekki að hafa það hér einnig, sem ríkisstj., að vísu ekki núv. og ekki fyrrv., heldur utanþingsstjórnin svokallaða, ákvað, að skyldi vera hjá skattgreiðendum, og hinar stjórnirnar hafa látið líðast áfram án þess að breyta því.

Nú langar mig til að gera þriðju fyrirspurnina. Það er ekki vafamál, að undir fasteignir ríkisins heyrir bunki af jörðum, sem sumar eru taldar eign jarðakaupasjóðs, aðrar bein eign ríkisins sem þjóðjarðir og aðrar óbeint sem kirkjujarðir. Nú eru ýmsar jarðirnar byggðar með erfðaábúð, og þar tekur ríkið afgjaldskvöð, sem lögð er í sérstakan sjóð og í sparisjóðsbók, og féð geymt, þar til byggja á upp á jörðinni. Er nú ástæða til þess, að þessar eignir ríkissjóðs verði afskrifaðar með sérstakri fyrningarprósentu? Þeim er tryggt fé í viðkomandi sparisjóðsbók til þess að byggja upp, þegar á þarf að halda. Ég sé ekki, að nein ástæða sé til fyrningar þarna. Ég hefði mjög óskað eftir því, að n. hefði athugað þetta allt. Ég tel eðlilegast, að fyrningargjald sé reiknað af kostnaðarverði, en ekki fasteignamatsverði. Hins vegar hef ég ekki viljað bera fram brtt. við neitt af þessu, en vildi aðeins, að n. athugaði, hvort hún sæi sér ekki fært að haga þessu á þennan veg. Og torfbæi þarf að fyrna með annarri prósentu en steinhús eða timburhús.