11.04.1947
Neðri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

221. mál, bifreiðaskattur

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Hæstv. samgmrh. minntist á það, að ég hefði meint, að ríkið ætti að setja upp viðgerðarstöðvar. slíkt var ekki mín meining. Ég meinti aðeins, að ríkið tæki þær viðgerðarstöðvar, sem fyrir eru.

Í sambandi við það, sem ráðh. minntist á, að þessi till. hefði ekki komið fram, áður en þessi mikli bílainnflutningur hófst, þá ætti hann nú að ræða við fyrrv. samstarfsmann sinn, fyrrv. fjmrh., hvort honum hafi aldrei verið bent á þessar tekjuöflunarleiðir. En þótt bent sé á þessar tekjuöflunarleiðir, er sá mikli galli á þeim, að þær rekast á hagsmuni fárra voldugra manna í þjóðfélaginu, og eftir reynslunni að dæma eru þeirra hagsmunir svo miklu sterkari á þingi, en fjöldinn og hans hagsmunir. — Hvað hitt snertir, sem hæstv. samgmrh. minntist á, að þessi möguleiki væri þó fyrir hendi, held ég, að væri rétt af honum, ef honum lízt svona vel á þessa leið, að taka undir það að prófa hana.