07.02.1947
Neðri deild: 68. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1843 í B-deild Alþingistíðinda. (3200)

158. mál, framfærslulög

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. flytur þetta mál, en n. hefur enn ekki getað tekið það til meðferðar. Á síðasta Alþ. var samþ., er tryggingalögin voru á ferðinni, að taka framfærslulögin til ýtarlegrar athugunar og liggja þau nú hér fyrir í frv.-formi. Í frv., eins og það nú liggur fyrir, eru tvær breyt., og þó sérstaklega ein, þar sem fyrri ákvæði þessara l. um gagnkvæma framfærsluskyldu eru niður felld. N. hefur ekki enn rætt þetta mál, en ég vil leyfa mér að geta þess sem minnar skoðunar, að ég er í nokkrum vafa um það, hvort rétt sé að fella niður framfærsluskylduna. Ég tel mjög vafasamt, að ákvæði almannatryggingal., eins og þau eru nú, geti komið í stað framfærsluskyldu foreldra og barna. Aðrar breyt., sem ekki leiðir beint af almannatryggingunum, eru miklu þýðingarminni, og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þær. Ég óska, að þessi hv. d. vísi málinu aftur til heilbr.- og félmn. og 2. umr. Mun þá n. lýsa skoðun sinni nánar við 2. umr.