14.04.1947
Neðri deild: 114. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í B-deild Alþingistíðinda. (3205)

158. mál, framfærslulög

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur athugað þetta mál á milli umr., og hefur n. haldið mjög marga fundi um málið og athugað frv. í samvinnu við hina stjórnskipuðu nefnd og forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, en þrátt fyrir það varð n. ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. ber fram 3 brtt., sem prentaðar eru á þskj. 604, en minni hl. ber fram brtt. á sérstöku þskj. N. stendur óskipt að 3 brtt. á þskj. 604. Í frv. er gert ráð fyrir þeirri prinsip-breytingu, að framfærsluskyldan sé felld úr gildi, en um það atriði varð n. ekki sammála, og mun ég snúa mér að þeim atriðum, sem n. varð ekki sammála um.

7. gr. núgildandi l. er um framfærsluskylduna. Þessa gr. hafði stjórnskipaða n. fellt niður. Meiri hl. n. vill breyta þessu aftur. Hv. 2. landsk. þm. er sá nm., sem ekki gat orðið samferða meðnm. sínum í þessu. Nú þarf einnig að taka hér inn viðbótarákvæði, sem um getur í brtt. meiri hl. Bak við það standa einnig 4 af 5 nm. Þar er það 2. þm. Eyf., sem er í minni hl. Í 72. gr. frv., eins og það liggur nú fyrir, segir:

„Nú hefur framfærsluþurfi misst rétt til bóta eða lífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar, vegna vanskila á iðgjaldi, og getur sveitarstjórn þá keypt honum full réttindi samkvæmt þeim lögum með því að greiða iðgjald hans fyrir næst liðið ár.“

Þetta olli ágreiningi í n. Ræddi ég þetta við framfærslufulltrúa Reykjavíkur og forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins. Við töldum það óeðlilegt, að hægt væri að kaupa réttindi með því, að sveitarstjórn greiddi aðeins eins árs iðgjald. Við vorum sammála því, að þetta væri andstætt tilgangi l., og lögðum til, að 72. gr. yrði felld úr gildi og að það þyrfti að greiða allt vangoldið iðgjald til þess að ná fullum réttindum. Meiri hl. n. lagði til að gera þetta, en það kom mótstaða gegn þessu frá fulltrúum sveitarstjórnanna, en svo varð samkomulag um, að greiða þyrfti fyrir 5 árin, sem vangoldin væru, til þess að fá full réttindi, í stað eins árs. Hér var því reynt að fara beggja bil. Að þessu stendur meiri hl. n. að frá töldum 2. þm. Eyfirðinga.

Ég hygg nú, að ég hafi í stuttu máli gert grein fyrir brtt., og fjölyrði ekki frekar um þetta.