14.04.1947
Neðri deild: 114. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (3206)

158. mál, framfærslulög

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég er ekki að öllu leyti sammála meiri hl. n. í afgreiðslu þessa máls, eins og þegar hefur verið lýst, en ég er ósamþykkur annarri brtt., við 72. gr. frv. Er frv. kom í Alþ. var svo gert ráð fyrir, að aðili missi réttindi vegna vanskila, en að hann geti endurheimt full réttindi með því, að sveitarstjórn greiði gjald hans fyrir undangengið ár eða eitt ár. Þetta var sjálfsagður hlutur, en meiri hl. taldi það ekki fullnægjandi og vill, að það þurfi að greiða allt að 5 ára gjald til þess að ná aftur réttindum. Ég hef svo farið hér milliveginn og lagt til, að greitt yrði fyrir tvö ár í stað fimm.

Eins og kunnugt er, þá innheimta sveitarstjórnirnar ekki iðgjöldin, heldur trúnaðarmenn Tryggingastofnunar ríkisins, og ég leyfi mér nú að taka dæmi til þess að skýra, hvernig þessi ráðstöfun getur komið niður. T. d. ef við tökum einhvern lítinn útgerðarmann á Akranesi, sem hefur trassað að borga, vegna þess að trúnaðarmaður tryggingastofnunarinnar hefur trassað að innheimta gjaldið, og svo verður þessi sami maður sveitarþurfi vegna heilsubrests eða annarra óhappa, þá verður sveitarstjórnin að greiða iðgjaldið fyrir síðustu 5 árin, og er þar með hreppsnefndin sett í ábyrgð fyrir iðgjöldunum, og horfir þá málið öðruvísi við að mínum dómi. Nú, ef einn maður á að borga 500 tr. á ári í iðgjald og trassar það svo í 4 ár eða tryggingarstofnunin vanrækir að innheimta gjaldið, þá er sú upphæð, sem sveitarstjórn er ætlað að borga, yfir 2 þús. kr., og ef maðurinn veikist svo, þá verður hún að borga 6. árið líka. Það nær því ekki neinni átt að ætla sveitarstjórnum að greiða 5 ára skuld, sem vel má vera vegna lélegrar innheimtu gjaldanna, og hef ég því ekki gert ráð fyrir að skylda sveitarstjórnir að leysa iðgjöldin lengur en til tveggja ára, og er það sýnu skárra, og það nær ekki neinni átt að krefjast 5 ára greiðslu og leysa þannig út þennan eða hinn. Ekki er hægt að banna manni að flytja á milli hreppsfélaga. Og hvaða sanngirni er það að ætlast til þess að sveitarstjórnir leysi menn út vegna vanrækslu á innheimtu tryggingastofnunarinnar eða trúnaðarmanna hennar?

Ég vænti svo þess, að brtt. mín nái samþykki.