14.04.1947
Neðri deild: 114. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (3208)

158. mál, framfærslulög

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það var af tilefni út af 72. gr. og brtt., sem ég vildi segja nokkur orð. Ég tel mig hafa til þess nokkrar ástæður að ræða mál þetta, þar sem ég er því persónulega kunnugur frá tveim hliðum, bæði frá hlið stærsta sveitarfélags landsins og tryggingastofnunarinnar.

N. sú, er samið hefur þetta frv., hefur lagt til, að að því ráði sé horfið, ef tryggingaskyldur maður hefur ekki greitt sín tryggingagjöld og verður síðar framfærsluþurfi, þá skuli sveitarfélagi heimilt að kaupa honum réttindi með því, ekki að greiða iðgjöld hans eitt ár aftur í tímann, heldur hefur meiri hl. n. lagt til, að í staðinn fyrir eitt ár komi 5 ára greiðsla. En minni hl. hefur farið bil beggja og vill hafa það 2 ár. Það er í tilefni af ræðu hv. 2. þm. Eyf., sem ég vil segja nokkur orð. Ef ég hef skilið hv. þm. rétt, þá lítur hann svo á, að sveitarfélagi sé sýnd hér veruleg óbilgirni vegna þess fyrst og fremst, að þar sem svo stendur á, að iðgjöld innheimtast ekki, þá sé það fyrst og fremst að kenna vanrækslu tryggingastofnunarinnar eða þeirra manna, sem innheimtuna hafa með höndum fyrir hana. Í öðru lagi þá sé sveitarstjórnum ókunnugt um, hverjir það eru á hverjum tíma, sem ekki greiða iðgjöld sín. Við skulum taka þetta til athugunar. Eins og hv. þm. er kunnugt, er ákveðið í l. um almannatryggingar, að innheimtumenn ríkisins, sem innheimta opinber gjöld, svo sem sýslumenn og hliðstæðir embættismenn í bæjum, skuli innheimta tryggingagjöldin. Þau eru lögtakskræf, eins og kunnugt er, og hafa allan sama rétt og önnur opinber gjöld. Nú get ég sagt það af nokkurri reynslu, að ég tel ekki, að þessir embættismenn ríkisins séu ámælisverðir fyrir að hafa ekki gengið vel fram fyrir tryggingarnar til þessa. Og get ég ekki séð, að það þurfi að breyta nokkru, þótt í framkvæmd komi l. um almannatryggingar í stað alþýðutrygginga. Það má vel vera, að svo sé, að sveitarstjórnir viti ekki, hverjir það eru, sem ekki greiða gjöld sín. En ekki þarf það svo að vera. Nú er að vísu ekki ákveðið í l. um almannatryggingar, að sveitarstjórnum skuli tilkynnt, hverjir það eru, sem ekki greiða gjöld sín. En hins vegar er ráð fyrir því gert, að sett skuli reglugerð og það fleiri en ein um framkvæmd þessara l. Og ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að í reglugerðina sé sett ákvæði um það, að gerður skuli listi um ógreidd iðgjöld í hverju iðgjaldaumdæmi í landinu og hann birtur sveitarstjórnum. Ég vil mæla með því, að slíkt ákvæði verði fært inn í reglugerðina. Og það má gera sveitarfélagi kleift að fylgjast með því, hverjir það eru, sem ekki greiða gjöld sin. Varðandi menn þá, sem einkum mun ekki innheimtast hjá, þá vil ég benda á 109. gr. l., en þar segir svo : „Nú sækir maður til sveitarstjórnar um, að sveitarsjóður greiði fyrir hann iðgjöld hans, sakir þess að hann sé ekki fær um það af eigin rammleik, og tekur þá sveitarstjórn ákvörðun um umsóknina með tilliti til ástæðna hlutaðeiganda. Þó á iðgjaldsgreiðandi jafnan rétt á því, að sveitarsjóður greiði fyrir hann iðgjöldin, ef tekjur hans og eignir eru svo rýrar, að honum beri ekki að greiða tekjuskatt né eignaskatt það ár, og má aldrei krefja hann um hærri hluta iðgjaldsins en svo, að nemi helmingi skattskyldra tekna hans, unz fullu iðgjaldi cr náð. Greiðir sveitarsjóður það, sem á vantar fullt iðgjald. Slíkar iðgjaldagreiðslur úr sveitarsjóði teljast ekki framfærslustyrkur.“ Ég tel það engum efa bundið, að töluverðir örðugleikar séu því samfara að innheimta gjöld þeirra manna, sem fallið hafa úr tryggingu vegna vanskila. En ég tel víst, að leitað verði lögtaks hjá þeim til þess að innheimta gjöldin, a. m. k. þar sem einhverju er hægt að ná. En vitanlega er allmikill hópur manna til, sem getur ekki eða getur illa greitt sín iðgjöld. Og fyrir þessu hefur löggjafinn gert ráð og ætlazt til, að sveitarsjóður greiði iðgjöld þessara manna, þótt ekki sé um beina skyldu að ræða nema í þeim tilfellum, þegar tekjur hlutaðeiganda séu fyrir neðan ákveðið lágmark. Nú liggur það í hlutarins eðli, að mörg sveitarfélög mundu vilja komast undan því að nota ákvæði 109. gr. Og væri það svo, að sveitarstjórnir vissu, að áhættan væri engin önnur en sú, að hún þyrfti síðar meir að greiða eitt eða 2 ár aftur í tímann fyrir hlutaðeigandi mann, þá hygg ég, að margur fátækur maðurinn mundi fara bónleiður til búðar, ef hann færi fram á það við sveitarstjórn, að hún greiddi fyrir hann iðgjöldin. Mikill hluti vangreiddra iðgjalda mundi líka geta stafað af því, að sveitarstjórnin notaði ekki 109. gr., eins og löggjafinn ætlast til. Og eini sporinn, sem hægt er að nota á sveitarstjórnir í þessu efni, er sá, að þær beri ákveðnar byrðar af því, ef maður greiðir ekki gjöld sín og skyldi síðar lenda á sveitarframfæri. Ef að því ráði er horfið að heimila sveitarfélögum að kaupa menn aftur inn í tryggingarnar með eins eða tveggja ára tryggingargreiðslum, þá mundi það þýða það, að 109. gr. yrði lítið eða ekkert notuð og mikill hópur manna mundi falla úr tryggingu. Og við vitum, að það er ekki að ástæðulausu, að þörf er á að beita sveitarstjórnir í þessum efnum spora. Það má líka benda á, að tvennt er til um mann, sem fellur úr tryggingu, en vill svo komast inn í þær aftur. Hann getur sjálfur verið fær um að greiða sín gjöld eða hann er ekki fær um það og sveitarfélagið hefur tekið við hans framfærslu. Ef maðurinn er sjálfum sér nógur, þá mun tryggingastofnunin sættast við manninn, og hann greiðir öll sín vangreiddu iðgjöld, svo að tryggingastofnunin verði skaðlaus samkv. tryggingal. En hins vegar, ef maður er á framfæri sveitar, þá á tryggingastofnunin að bíða halla. Ég veit ekki hvers vegna. Meginreglan er sú, að sveitarfélögin taka við mönnum eins og þeir koma fyrir með öllum skyldum og réttindum, sem á þeim hvíla og þeir hafa, og líka þeim skyldum og réttindum, sem á þeim hvíla og þeir eiga gagnvart Tryggingastofnun ríkisins. — Mér hefði þótt langeðlilegast og réttast, að 72. gr. félli niður með öllu, þannig að sveitarfélög yrðu að greiða að fullu iðgjöld þeirra manna, sem óskað er að halda í tryggingu. Ég tel samt, að þetta sé þó ekki fráleitur samkomulagsgrundvöllur með 5 ára frestinn, af því að ég lít svo á, að um sök beggja sé að ræða, sveitarstjórnar og tryggingastofnunarinnar, ef maður fellur úr tryggingu. En yfirgnæfandi líkur tel ég fyrir því, ef maður fellur úr tryggingu, að það komi til af því, að sveitarstjórn komi sér undan sumpart tilmælum og sumpart skyldum gagnvart þessum sama manni. Ég vildi hvetja hv. þdm. til að standa með meiri hl. n. í þessu efni.

Það var ekki fleira, sem ég ætlaði að ræða um, en mér varð núna rétt litið á eina gr. frv., 45. gr. Hv. minni hl. n. leggur til, að hún verði felld niður. Þetta er alveg gersamlega fráleit gr., og ég skil ekkert í, hvernig þessi gr. hefur farið í gegnum hendur svo margra ágætra manna, án þess að þeir leggi til, að hún verði felld niður. Þessi gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú sýnir framfærsluþurfi mikla óhlýðni eða þrjózku við sveitarstjórn, eða hann sökum leti, drykkjuskapar, illinda eða óknytta eykur sveit sinni sýnileg þyngsli, og má þá sveitarstjórnin láta setja hann í fangelsi við venjulegt fangaviðurværi í allt að 3 mánuðum, þó því aðeins, að lögreglustjóri veiti samþykki sitt til þess í hvert sinn, eða setja hann í nauðungarvinnu með samþykki lögreglustjóra og eftir reglum, er ráðherra þar um setur. Kostnaður við fangelsisvist eftir grein þessari greiðist af ríkissjóði.“ Þetta er ekkert smáræðis vald, sem sveitarfélögum er gefið þarna, vald til þess að setja menn í hvorki meira né minna en 3 mánaða fangelsi. Það þarf að vísu til samþykki lögreglustjóra. Mér virðist þetta ákvæði alveg vera í aðra átt en ákvæði þess frv., sem við vorum að afgreiða hér áðan, um lögræði. Það er gengið út frá því í okkar stjskr., eins og kunnugt er, að það megi ekki svipta menn frelsi þeirra, nema leiða þá fyrir dómara innan 24 klst. Í því frv. um lögræði, sem ég nefndi, þá er þetta í einu tilfelli ofurlítið rýmkað, þegar um sjúklinga er að ræða, þó ekki meir en svo, að það er ætlazt til þess, að innan tveggja sólarhringa sé mál mannsins tekið til athugunar af hlutaðeigandi löggæzlumanni. — Mér finnst þetta ákvæði í þessu frv., sem hér liggur fyrir, ekki ná nokkurri átt. Ef á að svipta mann sjálfsforræði um lengri tíma, er sjálfsagt að fara þar um eftir gildandi eða væntanlegum l. um lögræði. En að gefa sveitarstjórn þetta vald, virðist mér alveg fjarstæða.