11.04.1947
Neðri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

221. mál, bifreiðaskattur

Samgmrh. (Emil Jónsson):

það voru aðeins örfá orð. Út af prófun þessarar leiðar, sem þm. benti á, vil ég segja, að hún gæti jafnvel komið til athugunar, en tel, að ef það væri í alvöru fram sett af honum, yrði það að vera betur undirbúið en svona og koma fram á venjulegan, þinglegan hátt. Það yrði þá hægt að ganga úr skugga um það. En að flytja mætti inn mikið af bifreiðum til landsins, það er misskilningur. Ég hygg, að búið sé að flytja svo mikið inn af bifreiðum, að ekki sé hægt að bæta miklu við það. Þar sem komin er ein bifreið á hverja 16 íbúa í landinu, er það svo há tala, að ég hygg, að allir muni vera sammála um, að með tilliti til þeirra gjaldeyristekna, sem þjóðin nú hefur og öflunar nýrra framleiðslutækja, sem óumdeilt verða að ganga fyrir, að þá séu ekki möguleikar til þess að flytja inn mikið af bílum umfram það, sem þegar hefur verið gert. — En aðrar leiðir, sem hann hefur bent á, koma ekki að notum, fyrst og fremst vegna þess, að þær tekjur. sem við öflum nú, verða að koma inn á árinu 1947 og á þess árs reikningi, en þessi tekjuöflunarleið, sem hann er með, er miðuð við framtíðina og kemur því ekki hér til álita.