05.05.1947
Neðri deild: 121. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1852 í B-deild Alþingistíðinda. (3214)

158. mál, framfærslulög

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Frv. þetta var upphaflega flutt af heilbr.- og félmn., en frv. sjálft var samið af stjórnskipaðri n., því að það þótti rétt að gerðar yrðu breytingar á núgildandi framfærslulögum. Á milli 1. og 2. umr. frv. tók heilbr.- og félmn. frv. til athugunar og einskorðaði hún athuganir sínar við breyt. þær, sem stjórnskipaða n. hafði lagt til, að gerðar yrðu á núgildandi framfærslulögum. Ein breyt., sem stjórnskipaða n. lagði til, var, að framfærsluskylda barna gagnvart foreldrum sínum yrði felld úr l., og var það gert með tilliti til l. um almannatryggingar, en heilbr.- og félmn. lagði til, að þessi skylda barna til framfærslu foreldra sinna yrði aftur tekin inn í frv. Starf heilbr.- og félmn. var einkum fólgið í því að fara yfir frv. og athuga, hvaða breyt. stjórnskipaða n. hafði gert á gildandi framfærslulögum. Skal ég að nokkru geta helztu breytinganna, sem n. hefur nú lagt til, að gerðar verði á frv., en brtt. n. eru prentaðar á þskj. 728.

1. brtt. er orðalagsbreyting, að í staðinn fyrir orðið framfærsluþurfi komi alls staðar í frv. orðið styrkþegi. 2. brtt. er aðeins sjálfsögð leiðrétting. 3. brtt. miðar í þá átt, að yfirvald ákveði meðlag barna með foreldrum eftir því, sem mælt er í l. um almannatryggingar og l. um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna. 4. brtt. er einnig breyting frá því, sem áður var, að meðlag, lífeyrir eða barnsfararkostnaður sé með úrskurði valdsmanns lögtakskræft hjá framfærslumanni, sé það ekki greitt. 5. brtt. er um það, að ekki sé Tryggingastofnun ríkisins skylt að greiða aðrar eða hærri fjárhæðir samkv. úrskurði eða samningi um meðlag eða lífeyri með börnum en mælt er í l. um almannatryggingar. 6. brtt. er við 36. gr., 2. málsl. 3. málsgr., og er lagt til, að hún orðist svo: „Húsnæði það, sem styrkþega er útvegað og greitt er fyrir af opinberu fé eða sveitarstjórn leggur til, skal vera sómasamlegt að dómi héraðslæknis.“ Sumt af þessu er í l. um barnavernd, en n. þótti orðalagið ekki fullkomið og kaus heldur að orða gr. á þennan hátt. Sama er að segja um breyt., sem n. hefur gert við 40. gr. frv., að þar eru fyrirmæli varðandi umboð fyrir styrkþega, og er sama að segja um 9. brtt., sem er við 41. gr. frv., en hún er einnig varðandi umboð sveitarstjórna og er umorðun um skyldu sveitarstjórnar til þess að sjá um, að börn, sem eru undir hennar umsjón, njóti lögboðinnar skólafræðslu.

Þýðingarmesta breyt. við l., sem n. leggur til, er við V. kafla l., og eru það þýðingarmiklar efnisbreytingar. Þá er lagt til að heiti V. kaflans verði: um samskipti sveitarstjórna og styrkþega. Breyt. n. við þennan kafla eru í meginatriðum þessar:

Í gildandi l. hefur sveitarstjórnum verið heimilt að úrskurða styrkþega til þess að greiða sér meðlagskostnað með því að senda þá í ákveðna vinnu, á vinnuhæli eða vinnustofnun. Heilbr.- og félmn. hefur nú fundizt rétt, að sveitarstjórnir skuli leita úrskurðar valdsmanns um þetta, ef styrkþegi vanrækir skyldur sínar um endurgreiðslu. N. þótti rétt að valdsmaður skyldi um þetta fjalla (í Reykjavík sakadómari), en ég segi ekki þar með, að þessu valdi hafi verið misbeitt.

Ég skal einnig fara að nokkru í gegnum aðrar breyt., sem n. hefur lagt til, að gerðar verði á kaflanum. Nú hefur styrkþega verið vísað í vinnu og sé hann vinnufær, en gegni hann ekki þeirri skyldu, þá getur sveitarstjórn aflað sér úrskurðar valdsmanns (í Reykjavík sakadómara), að styrkþegi sé vinnufær. Það eru því þessi fjögur atriði, sem hér er lagt til, að bundið sé sveitarstjórn að fá úrskurð valdsmanns um : 1. að vinnuveitandi styrkþega skuli greiða sveitarstjórn kaup styrkþega; 2. að sveitarstjórn er heimilt, að fenginni staðfestingu valdsmanns, að vísa framfærsluþurfa á tilhlýðilega atvinnu, sem honum er ekki um megn, og styrkþegi er skyldaður til þess að taka henni; 3. að fengnum úrskurði valdsmanns er hægt að senda styrkþega á vinnuhæli; 4. fara skal með fjárræði styrkþega að lögræðislögum.

Þá er það að segja um 50. gr., að hún er orðin úrelt í l. sem þessum, sbr. önnur l., t. d. hegningarlögin nýju, og er gr. því umorðuð. Í 180. gr. nýju hegningarlaganna eru sams konar ákvæði, og vill n. því breyta gr. Þá taldi n. rétt að gera hér það frávik, að maður, sem býðst til þess að vinna þessa refsingu af sér, skuli komast hjá refsingu.

Við 61. gr. frv. gerir n. eina breytingu, en þessi gr. er um rétt til þess að krefjast endurgreiðslu styrks, veitts af sveitarfé. N. leggur til, að á eftir 6. tölul. 61. gr. komi nýr tölul., sem hljóði svo: „Framfærslustyrk, veittan mæðrum, sem hafa fleiri en tvö börn á framfæri og aðeins stunda húsmóðurstörf á eigin heimili. 13. brtt. er aðeins leiðrétting, og sama er að segja um 14. brtt.

15. brtt. felur í sér umorðun. Hin stjórnskipaða n. samdi þetta frv. og endurskoðaði gömul l. varðandi þessi efni og l. um afstöðu til óskilgetinna barna og athugaði í því sambandi vandamálið í sambandi við setuliðsbörnin svo kölluðu. Hér er fjöldi mæðra, sem ekki fá meðlög með börnum sínum, vegna þess að þau eru börn hermanna, sem hér dvöldu á stríðsárunum. Hins vegar hefur verið beiðzt, að meðlagsskylda verði gefin út með börnum 60 mæðra, en þær umsóknir liggja til. afgreiðslu hjá sakadómaranum í Reykjavík, en þessi mál liggja enn óafgreidd, og geri ég ráð fyrir, að eitthvað sé til viðbótar af umsóknum hjá héraðsdómurunum. Stjórnskipaða n. lagði til, að þeim mæðrum, sem kenna setuliðsmönnum börn sín, verði gefinn kostur á að vinna eið og síðan fá meðlag með börnum sínum. Nú fannst n. nokkuð langt gengið, að allar stúlkur, sem börn eiga, geti með eiði orðið aðnjótandi styrks. Heilbr.- og félmn. var sammála um það að takmarka þetta við þau börn, sem fædd eru á hernámsárunum. Hins vegar þótti n. það viðurhlutamikið, ef 60 stúlkur eiga að feðra börn sín með eiði hjá sakadómara, og leggur n. því til, að sakadómara sé heimilt að úrskurða, að þær stúlkur skuli fá greiddan lífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins, sem færa gildar líkur fyrir faðerninu. Sakadómari getur því afgreitt þessi 60 barnsfaðernismál, sem liggja fyrir embætti hans, ef hann telur fullkomnar líkur fyrir því, að barn sé rétt feðrað. Sú breyt., sem n. leggur til á þriðja bráðabirgðaákvæðinu, er því sú, að málum þessara barnsmæðra geti lokið án eiðvinningar.

Ég get getið þess, að er þetta var til umr. í heilbr.- og félmn., þá var það ekki talið eðlilegt, að málum þessara barnsmæðra gæti lokið án eiðs, þar sem þær mæður, sem ekki hafa nú þegar sent beiðnir um meðlag, en kynnu að gera það síðar, eru skyldar að vinna eið, og ég get viðurkennt, að mikið er til í því, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði í n., að n. óaði við því, ef 60 barnsmæður ættu að vinna eið til þess að verða meðlagsskyldar, og er hæpið, ef sú eiðvinning verður til gagns, og væri slíkt ærið hæpið, en færði aðeins líkur fyrir málinu. Þetta var rætt alveg sérstaklega í n., og komu þessi tvö sjónarmið fram.

Þá hef ég lokið að ræða þetta. Ég skal að síðustu geta þess, að þar sem form. stjórnskipuðu n., Jónas Guðmundsson, var farinn af landi burt, þá gat n. ekki rætt þetta við hann, en í stað þess ráðfærði n. sig við Ólaf Sveinbjörnsson framfærslufulltrúa.

Það má segja, að allar þessar breyt. séu samdar í samráði við hann, auk þess sem n. hefur notið aðstoðar annarra lögfræðinga, og má því segja, að hann sé fyrir sitt leyti sammála öllum brtt. heilbr.- og félmn., sem gerðar eru við frv.