11.04.1947
Neðri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

221. mál, bifreiðaskattur

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég gat um það áður lítils háttar. hvert hlutverk sveitarfélaganna væri að leggja vegi og halda vegum við, og minntist sérstaklega á vegina í Reykjavik. Kom ég þá með ágizkun um það, hvað vegirnir kynnu að vera langir, en nú hef ég fengið réttar upplýsingar, og reyndust vegirnir vera miklu lengri, en ég hafði haldið, því að eftir því sem bæjarverkfræðingur upplýsir, eru þessir vegir 118 km. það eru því engar smáræðisupphæðir, sem þetta eina bæjarfélag þarf að inna af hendi í vegalagningu og vegaviðhald. Nú stendur svo á, að allir þeir þm., sem sérstaklega hafa rætt þetta mál, eru þm. Reykjavíkurbæjar, og tveir þm., sem hafa rætt málið, hv. 3. og 7. þm. Reykv., eru báðir fulltrúar í stjórn þessa bæjarfélags. Ég vildi nú spyrja þá að því, með hvaða rökum þeir vildu verja að bæjarfélagið yrði þannig skattlagt í stórum stíl til þess að viðhalda vegum, jafnt fyrir bíla úti um landsbyggðina sem þá bíla, sem eingöngu slíta vegum Reykjavíkur. Slíkt hlyti óhjákvæmilega, ef samþ. yrði, að verða til þess að soga til sín mikið fjármagn, og mundi með því stigið spor á þeirri braut að gera afkomu almennings hér í bænum slæma og dýrtíðina meiri. Er ástæða til þess að gera þetta? Ég vil sérstaklega beina því til þessara bæjarfulltrúa, hvort þeir geti ekki fallizt á það, sem ég hef bent á, að ef allir atvinnubifreiðastjórar, sem aka eigin bifreiðum, verða skattlagðir á þennan hátt, sem hér er lagt til, muni svo fara, að möguleikar bæjarins til skattlagningar á þessa stétt hljóta að rýrna allverulega og er það ábyrgðarhluti fyrir þm. Reykjavíkur og bæjarfulltrúa að stuðla að því með orði og atkv. að taka þann gjaldstofn frá bænum. Er ekki þörfin ærin? Og er ekki réttmætt, að bærinn geti skattlagt þá menn, sem hafa sitt lífsuppihald af því að aka bílum, þannig að hann fái gegnum það nokkurt fé til síns vegaviðhalds, eins og ríkið vill fá fé til sinna vega með því að skattleggja þá menn, sem eiga bifreiðir og aka bifreiðum? Ég vil segja, að mér þótti ánægjulegt að sjá það, að stuðningsmenn ríkisstj. geta þó hugsað sig um þetta, og það er vissulega gott, að þeir hafa efnislega fallizt á efnið í till. mínum og aðferðum. En starfsaðferðin er skrýtin, mjög skrýtin. það er einkennilegt, að ekki skuli vera ætlaður tími til að ræða í n. tvö stór frv. það er bannað að ræða málið vel. Minni hl. er enginn tími gefinn til þess að koma með brtt., eins og ástæða hefði verið til. Ég þekki þessi vinnubrögð úr bæjarstjórn Reykjavíkur, og þeir þekkja þau líka, hv. 3. og 7. þm. Reykv. það sýnir sig, að þessir fulltrúar eru samir við sig á þingi og í bæjarstjórn, vinnubrögðin þau sömu. Ekki satt? En það væri sæmilegra fyrir meiri hl. að læra af því, sem þegar er orðið, láta sér þetta að kenningu verða og láta þetta stóra mál bíða, sem átti að hespa í gegn á einni nóttu, þannig að meiri hl. og minni hl. gæti gefizt fullkomið tóm til að athuga málið til hlítar. En það þarf að athuga málið. Þetta eru engin vinnubrögð eins og hér hefur verið unnið í dag.