13.05.1947
Neðri deild: 127. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í B-deild Alþingistíðinda. (3239)

247. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Þetta mál er flutt af fjhn. og er búið að vera til fyrstu umr., en þá gat ég ekki fylgt því úr hlaði, eins og ráð hafði verið fyrir gert, sökum lasleika.

Eins og frv. ber með sér, er tilgangur þess að fá með þessu fé til starfsemi Landssambands íslenzkra útvegsmanna, því að eins og vitað er, þá er starfsemi þess orðin mjög mikil og gerir mikið fyrir útveginn og þá um leið fyrir þjóðina í heild. Það er því nauðsynlegt, að þessi starfsemi hafi nokkurt fé til umráða, en sá er tilgangur þessa frv.

Ég vil svo leiðrétta þann misskilning, að þetta frv. eigi á nokkurn hátt að rýra tekjur fiskimálasjóðs, því að það er algjörlega rangt.

Að lokum vil ég mælast til þess, að frv. verði vísað til 3. umr., og óska eftir, að því verði hraðað eins og auðið er, svo að það nái afgreiðslu á þessu þingi.