22.05.1947
Efri deild: 141. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1867 í B-deild Alþingistíðinda. (3279)

172. mál, loðdýrarækt

Frsm. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Þetta frv. var flutt um miðjan febr. og afgr. til hv. Nd., og þaðan er það nú aftur komið með dálitlum breyt. Í frv., eins og það var afgr. héðan úr d., var ákveðið í 7. gr., að landbrh. sé heimilt að fengnum till. yfirdýralæknis að láta flytja inn loðdýr og reka loðdýrabú á kostnað ríkisins til þess að ala upp fyrsta flokks loðdýr til undaneldis og kynbóta. Þessi ákvæði hefur Nd. fellt niður, og er það vissulega allmikil breyt. Enn fremur hefur hún bætt inn nýrri 7. gr., þar sem svo er kveðið á, að loðdýraræktarráðunauturinn skuli annast eyðingu villiminka og annarra loðdýra, sem sloppið hafa úr haldi. Skal hann hafa samvinnu við sýslunefndir, eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð. Nú hefur landbn. þessarar hv. d. tekið málið til athugunar á ný og rætt þessar breyt. við stjórn Loðdýraræktarfélags Íslands, og eftir það varð það að samkomulagi að flytja ekki brtt. til þess að stofna málinu ekki í hættu, en mæla með samþ. þess. N. flytur nú 2 brtt., sem eru aðeins formsbreyt., að 8. gr. falli brott og 10 gr. orðist svo — þessi brtt. er skrifleg, og vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa hana upp:

„Þá er l. þessi hafa hlotið staðfestingu, skal fella meginmál þeirra ásamt meginmáli l. nr. 94 1940 inn í l. nr. 38 1937, að slepptum II. kafla síðarnefndra l., sem numinn er úr gildi með l. frá 1947 um Ræktunarsjóð Íslands, og gefa þau út svo breytt.“

Þessi till. komi í stað 10. gr., sem verður 9. gr. Fleira sé ég ekki ástæðu til að taka fram. Ég hef lýst þessari afstöðu n., að hún leggur til, að þessar brtt. verði samþ., því að þær eru aðeins eðlileg formsbreyt., og frv. verði að öðru leyti samþ. eins og það kom frá Nd.