11.12.1946
Neðri deild: 35. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (3308)

102. mál, ríkisborgararéttur

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að segja hér aðeins nokkur orð vegna þess, hvernig mál þetta liggur fyrir. Það er svo einkennilegt, að strax við 1. umr. eru hér komnar fram brtt. við álit meiri hl. n. Það er stílað að vísu sem nál, frá minni hl. n. við frv.

Hv. frsm. meiri hl. hefur sagt, að samkomulag sé milli hans og frsm. minni hl. n. um, að umr. fari ekki fram fyrr en við 2. umr. um það, hverjum skuli veittur ríkisborgararéttur og hverjum ekki. — En það, sem kom mér til að segja hér nokkur orð nú, er það, að ég sé, að hvorki frá meiri hl. allshn. né frá minni hl. n. hefur komið fram till. um, að Volker Lindemann öðlist ríkisborgararétt. Það er kannske eðlilegt, að till. um það komi ekki fram frá hv. meiri hl. n., því að meiri hl. n. virðist hafa miðað sínar till. við það, að þeir einir skyldu fá ríkisborgararétt, sem fæddir eru hér á landi, en hafa misst hann af einhverjum ástæðum. En ég sé, að af minni hl. n. eru teknir upp nokkrir menn, sem óskað er, að fái ríkisborgararétt á öðrum grundvelli, þ. e. þeim, að þeir hafi dvalið hér í minnst 10 ár og uppfyllt þau, skilyrði, sem áskilin hafa verið áður í þessu efni. Ég sé, að þarna er þó felldur niður sá maður, sem ég gat um og hefur sótt um ríkisborgararétt undanfarin ár og er búinn, að ég hygg, að vera hér á landi í 12 ár og starfar hér í ábyrgðarmikilli stöðu. Hann er þýzkur maður og hefur starfað í Varmahlíð í Skagafirði og hefur haft forstöðu þeirrar stofnunar að miklu leyti og er alþekktur sem ráðdeildar- og dugnaðarmaður. Hans nafn er ekki tekið hér upp, hvorki í till. meiri hl. n.till. minni hl. n., og ég vil vekja athygli á því, að ég mun við 2. umr. málsins, ef ekki næst samkomulag við a. m. k. minni hl. n., að hann flytji till. um það, bera fram brtt. um, að þessum manni verði veittur ríkisborgararéttur.

Ég get verið hv. meiri hl. n. sammála um það, að rétt sé að sýna fulla varfærni um veiting ríkisborgararéttar almennt. Og það mun kannske stundum hafa verið gengið fulllangt í því á Alþ. að veita mönnum ríkisborgararétt — þó að mér sé ekki kunnugt um, að slíkt hafi valdið nokkru tjóni. En ég verð að segja, að ég get alls ekki aðhyllzt þá skoðun hv. meiri hl. allshn., að ekki sé rétt í neinum tilfellum að veita útlendum mönnum ríkisborgararétt, sem starfað hafa hér um langt árabil og sýnt sig jafngóða íslenzkum ríkisborgurum. Mér virðist, að okkar þjóð sé ekki það fjölmenn og að það séu hins vegar það mikil starfsskilyrði hjá okkur, að það sé engin áhætta, þó að slíkum mönnum sé veittur ríkisborgararéttur sem þessum Lindemann. Ég veit t. d. um þennan mann, að ef hann fær ekki ríkisborgararétt, mun hann að líkindum flytja af landi burt, enda mundi hann geta fengið starf víðar en hér á landi. En ég tel skaða fyrir okkur að missa þennan mann, sem búinn er að lifa sig inn í íslenzkt þjóðlíf og störf. Og ég get búizt við, að svo sé um fleiri, sem ekki eru till. komnar fram um, en sótt hafa um ríkisborgararétt. En ég nefni þennan mann, af því að ég er kunnugur honum, og ég hygg, að ég geti fengið meðmæli frá málsmetandi mönnum um mannkosti hans og hæfni.

Ég veit, að hér er um beinlínis meiningamun að ræða milli mín og hv. meiri hl. allshn., sem beinlínis veldur því, að þeir, sem í meiri hl. n. eru, hafa ekki tekið upp nafn Lindemanns, sem ég er hér sérstaklega að bera fyrir brjósti. En hitt skil ég ekki — en skal að vísu ekki ræða frekar um það nú —, hvers vegna hv. minni hl. hefur ekki tekið nafn þessa manns upp í sínar brtt., því að mér þykir ólíklegt, að gögn Lindemanns, varðandi hans fortíð, áður en hann kom til landsins, og þau, sem hann hefur um þann tíma, sem hann hefur dvalið hér á landi, séu ekki eins gild og þeirra, sem teknir eru upp í brtt. á þskj. 200, sem ég þekki ekki, en tek trúanlegt, að séu þeir menn, sem búnir eru að sýna, að ekki sé ósanngjarnt, þótt þeim sé veittur ríkisborgararéttur.

Ég taldi rétt að taka þetta fram við þessa umr. málsins, úr því að málið ber þannig að, að þessar brtt. eru komnar fram við brtt. meiri hl. n.