12.12.1946
Neðri deild: 36. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í B-deild Alþingistíðinda. (3313)

102. mál, ríkisborgararéttur

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Hv. frsm. þessa nefndarmeirihl. er ekki viðstaddur, og vildi ég því leyfa mér að gera nokkra grein fyrir afstöðu meiri hl. Frv. meiri hl. er byggt á mjög ýtarlegum skjölum, sem n. hefur með höndum. N. getur ekki dæmt um einstaka umsækjendur, nema hún fái ákveðin gögn í hendurnar. Við teljum, að sérstakrar varúðar þurfi nú við veitingu ríkisborgararéttar, því að tímarnir eru nú mjög breyttir frá því, sem áður var, og fleira er nú hér af erlendu fólki en nokkru sinni og fleiri umsóknir hafa borizt en nokkru sinni. Menn skyldu því byggja till. sínar í þessu efni á kunnugleika. Nú vantar víða nauðsynleg vottorð með umsóknum, og hefur verið erfitt að afla þeirra erlendis frá sökum ófriðarins, og má hér t. d. nefna hegningarvottorð o. fl. varðandi hegðun manna í heimalandi sínu. Það má vera, að sumir af þeim mönnum, sem nefndir eru í áliti minni hl., eigi fullkomlega rétt á því að fá borgararétt, og þá er það vel gert af hv. þm. að gefa hér upplýsingar um slíkt, og þótt þetta frv. sé flutt af n., þá tekur hún til greina till., sem fram kunna að koma. Það þarf því ekki að telja úrslitaorð n., sem komið er.

Ég get sagt persónulega, að ég vil tryggja það, að veiting borgararéttar sé byggð á fullkomnum kunnugleika. Ég er meðmæltur því að setja það skilyrði, að menn séu búnir að vinna hér 10 ár minnst og hafi á þeim tíma reynzt nýtir og góðir þegnar. Í þeim umsóknum, sem borizt hafa, eru menn, sem vilja í rauninni vera annars staðar í heiminum en hér og vinna þar. Ég veit ekki, hvernig þeir nota sinn íslenzka borgararétt á þeim vettvangi. Hér þarf því varúðar við að gæta sóma landsins.