17.02.1947
Neðri deild: 75. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1874 í B-deild Alþingistíðinda. (3317)

102. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. meiri hl. (Garðar Þorsteinsson) :

Herra forseti. Til allshn. hafa borizt um 50 umsóknir um veiting ríkisborgararéttar. N. hefur skilað þessu frv. þannig, að hún stendur öll um að veita þeim mönnum ríkisborgararétt, sem um getur á þskj. 396. En einstakir þm. hafa óbundnar hendur um að bera fram till. um veiting ríkisborgararéttar. Á þskj. 396 er lagt til, að 16 einstaklingum verði veittur ríkisborgararéttur.

Í l. frá 1935 eru sett ýmis skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar, og hefur sú regla verið látin gilda sem skilyrði fyrir þeirri veitingu, en síðan hafa ekki alltaf verið sett þau skilyrði, að þeir sýndu hegningarvottorð, þar sem erfitt var að ná slíkum gögnum á styrjaldartímum.

Nú þykir n. sýnt, af því að umsóknir eru margar og af því að hingað til lands sækir meiri fjöldi útlendinga en nokkru sinni áður og menn vita, að líka er að ganga hér í gildi ný tryggingalöggjöf, og þess vegna kannske ríkari tilhneiging manna til þess að öðlast hér ríkisborgararétt, þó að þeir hafi hér dvalarleyfi, að byggja till. sínar um veitingu ríkisborgararéttar á því, hvort umsækjandi er af íslenzku bergi brotinn eða hvort hann er fæddur hér á landi og hefur alizt hér upp.

Þær till., sem á þskj. 396 greinir, um veitingu ríkisborgararéttar eru byggðar á þessu, því að allir þeir aðilar, sem þar greinir, eru annaðhvort af íslenzku foreldri eða fæddir hér og upp aldir. Þó er ein undantekning frá þessu, Robert John Jack, það er till. hér frá n., að honum sé veittur ríkisborgararéttur, en þessi maður hefur tekið guðfræðipróf hér við Háskóla Íslands og hefur verið settur sóknarprestur í Heydalaprestakalli, og þótti n. rétt að mæla með því, að þessum manni yrði veittur ríkisborgararéttur. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að lesa hér upp nöfn þeirra manna, sem n. mælir með á þskj. 396, eða hvar þeir eru fæddir og hvernig þeir uppfylla þau skilyrði.

Í l. um veitingu ríkisborgararéttar frá 1935 er gert að skilyrði, að umsækjandi hafi dvalið hér í 10 ár, standi ekki í skuld eða hafi þegið sveitarstyrk, hafi ekki brotið íslenzk hegningarl. En nú þótti meiri hl. n. rétt að takmarka þetta við það, að menn væru fæddir hér og upp aldir eða af íslenzku foreldri, enda þótt þeir uppfylli þau önnur skilyrði, sem sett hafa verið. Og hafa því ekki verið gerðar hér aðrar undantekningar nema með þennan eina skozka mann, sem ég nefndi og vinnur í þjónustu þjóðkirkjunnar. Ég viðurkenni samt sem áður, að margir af þeim mönnum, sem sótt hafa um ríkisborgararétt hér á landi, eru mætir borgarar og hafa verið hér í mörg ár og sumir þeirra hafa unnið hér í mörg ár og rækt sín störf með mestu prýði, en ef á að falla frá þeirri reglu, sem n. hefur sett sér, er ákaflega erfitt að vinza úr, og yrði þá væntanlega að veita nærri öllum, sem um hann sækja.

Það hafa komið fram till. frá minni hl. n. um að veita allmörgum mönnum ríkisborgararétt og auk þess till. frá einstökum þm. á þskj. 410 og 214.

Ég vil svo að síðustu taka fram, að hér er um 50 menn að ræða, síðast í dag barst ein umsókn. Ég sé ekki ástæðu til þess að lesa upp öll nöfn þeirra manna, sem sótt hafa um ríkisborgararéttinn eða gefið skýringar í sambandi við það. En allar umsóknir liggja inni á skrifstofu Alþ., ef hv. þm. vilja kynna sér sérstaklega upplýsingar um einhvern umsækjanda og bera ef til vill fram brtt.

Ég vil að lokum mæla með því, að till. frá meiri hl. n. á þskj. 396 verði samþ., en hinar brtt. verði felldar.