17.02.1947
Neðri deild: 75. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1875 í B-deild Alþingistíðinda. (3318)

102. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. minni hl. (Hermann Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta mál nú. Það hefur komið á dagskrá hér áður og er á líku stigi nú og þá.

Hv. meiri hl. vill sníða hér nokkuð þröngan stakk um veiting ríkisborgararéttar, og að áliti minni hl. er hann allt of þröngur. Ég fæ ekki séð, að neitt hafi skeð, sem hafi sannfært mig sem minni hl., að ég hafi á röngu að standa, en meiri hl. á réttu. Þvert á móti er ég enn sannfærðari um það, að sú skoðun, sem kom fram hjá meiri hl., sé of þröng. Meiri hl. tók fram sem rök fyrir sinni skoðun, að vegna þeirrar stórfelldu aukningar á innflutningi útlendinga hingað til lands sé ástæða til að takmarka meira ríkisborgararéttarveitingu en áður hafi verið gert. Ástæðan fyrir þeim mikla innflutningi erlendra borgara er, eins og við vitum, ástandsfyrirbæri. Þeir menn, sem við eigum nú að taka ákvörðun um, eru allt annað fólk en þeir, sem hingað hafa flutt síðan stríðinu lauk. Þetta eru allt menn, sem eru búnir að vera hér lengur en 10 ár, allt fólk, sem uppfyllir skilyrði l. frá 1935, og ég fæ ekki séð, að neitt hafi gerzt í þessum málum, sem sýni, að þær reglur, sem farið hefur verið eftir hingað til, séu ekki réttar. Ég tel sjálfsagt að fylgja þeim eins og áður, og þess vegna legg ég til, að þeir menn, sem nefndir eru á þskj. 404, fái nú ríkisborgararétt. Ég hef gert till. um þessa menn, af því að ég veit um þá persónulega, að það er rétt að veita þeim ríkisborgararétt, og ég gæti mælt með flestum af þeim 50, sem hv. frsm. meiri hl. gat um.

Ég vil svo að lokum biðja hv. d. að láta meiri víðsýni ráða starfi sínu en ráðið hefur aðgerðum hv. meiri hl., og ég vænti þess, að ekki verði eingöngu samþ. þeir, sem meiri hl. hefur samþ., heldur einnig þeir, sem fram eru teknir í áliti minni hl. Ég álít, að sú afgreiðsla ein sé samboðin þessari samkomu, að þar ráði víðsýni og réttsýni, en ekki þröngsýni. Þess vegna mæli ég með því, að till. mín verði samþykkt.