17.02.1947
Neðri deild: 75. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1875 í B-deild Alþingistíðinda. (3319)

102. mál, ríkisborgararéttur

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það er brtt. á þskj. 410 frá okkur þm. Skagf., sem ég hef lýst við 1. umr. málsins og þarf ekki að taka neitt frekar fram en þar var sagt. Ég skal geta þess, að minni hl. allshn. hefur tekið upp þennan mann í brtt. sínar, Albert Volker Lindemann, og er ég minni hl. þakklátur fyrir það. Ég hef kynnt mér nokkuð till. minni hl. allshn. og skal lýsa yfir, að ég mun greiða þeirri till. atkv., eins og hún liggur fyrir. Ég mæli þar fyrir mig. Sérstaklega vil ég þó mæla með þeim manni, sem hér er um að ræða. Það er maður, sem búinn er að starfa 13–14 ár hér á landi við margvísleg störf og hefur á allan hátt sýnt sig að vera góður þjóðfélagsborgari. Ég er hv. frsm. minni hl. sammála um, að þeir menn, sem um svo langt skeið hafa sýnt sig að vera góðir borgarar, eigi að fá íslenzkan ríkisborgararétt.

Það mikla aðstreymi, sem nú er af erlendu fólki hingað til lands, virðist mér ekki þurfa að koma í bága við það, sem hér er um að ræða. Það er langt, þangað til þeir menn eru búnir að vera hér í 12–15 ár, en fyrr er ekki komin reynsla á, hvort þeir ætla sér að samlagast þessari þjóð, og sennilega fer fjölda margt af þessu fólki burt á næstu árum. og þarf þá ekki að taka tillit til þess síðar, þegar kemur til athugunar að veita ríkisborgararétt þá. Ég viðurkenni með meiri hl., að það er nauðsynlegt að viðhafa fulla varfærni í þessum málum, en ég tel, að það sé nokkurn veginn öruggt með því, að þeir, sem íslenzkan ríkisborgararétt vilja fá, sanni það með sínu starfi hér heima, að það sé rétt að veita þeim hann, og ég er sannfærður um, að það er engin hætta með þá menn, sem upp eru taldir á þskj. 404 frá minni hl. allshn. Og þann mann sem við þm. Skagf. sérstaklega berum fram í okkar brtt. á þskj. 410, er sannfærður um, að það er gróði fyrir þjóðfélagið að hafa hann starfandi hér, en ekki tap. Hins vegar er ég hræddur um, að við missum hann burt héðan, ef hann fær nú ekki íslenzkan ríkisborgararétt eftir svo langan starfstíma hér.