12.04.1947
Efri deild: 114. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

221. mál, bifreiðaskattur

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þessu frv., sem var fyrir skömmu afgr. frá þessari hv. d., hefur verið breytt lítils háttar í hv. Nd., og er þess vegna nauðsynlegt að bera þá breyt. undir þessa d. til samþykktar eða synjunar. Breyt. er í því fólgin, að hv. Nd. hefur fallizt á að setja svohljóðandi gr. inn í frv.: „Eigendur jeppabifreiða eiga rétt á endurgreiðslu skatts samkvæmt c-lið 1. gr., ef þeir sanna með vottorðum frá hlutaðeigandi skattanefndum, að bifreiðarnar hafi verið notaðar næstliðið ár að mestu eða öllu leyti við framleiðslu- og jarðyrkjustörf.“ — Ég lét tilleiðast eftir atvikum að fallast á þessa breyt., því að í raun réttri fellur þetta algerlega saman við þann upphaflega tilgang, sem ég og aðrir, er sæti eigum í nýbyggingarráði, höfðum í huga, þegar byrjað var á að flytja jeppabifreiðar til landsins, sem sé að þær yrðu sérstaklega notaðar við jarðyrkjustörf, og það var á þeim grundvelli, að horfið var að því ráði að greiða fyrir því, að bændur fengju þessar bifreiðar. Hins vegar er það vitað, eins og ég tók fram við 1. umr. málsins hér í þessari d., að þróunin í þessum hlutum hefur orðið sú, að þessar bifreiðar hafa miklu frekar verið notaðar á annan hátt, þ.e.a.s. til ferðalaga bæði í sveitum og í bæjum og hafa reynzt mjög þægilegar og bændastéttinni mjög nothæfar líka í því skyni. Vegna þeirrar þróunar var það, að ég vildi telja þær með fólksbifreiðum — og geri raunar enn — hvað skattaálagningu snertir. Aftur á móti er það að vissu leyti rétt, að séu þessar bifreiðar að öllu eða jafnmiklu leyti notaðar við hin ýmislegu jarðyrkjustörf, draga plóga og nota við heyvinnu á ýmsan hátt, þá er talsvert til í því, að þær beri að skoða að því leyti sem jarðyrkjuverkfæri. Á þessum grundvelli hef ég fallizt á þessa breyt., sem Nd. hefur gert á frv., er opnar þar leið til endurgreiðslu með vissum skilyrðum. Ég veit jafnframt, að allar slíkar undanþágur opna um leið veginn fyrir misnotkun, en ég vil treysta svo skattan. í hinum ýmsu byggðarlögum landsins, að þær gefi ekki vottorð út í bláinn, hvað þetta snertir. Eins er leið til að fylgjast með því, hvað bifreiðarnar eru notaðar mikið við heyvinnu, jarðrækt og því um líkt, með því að hafa eftirlit með hraða- og vegmælinum, sem í þeim er.

Ég þarf svo ekki að fjölyrða frekar um þetta og vil vona, að hv. d. geti fallizt á þessa breyt. og á frv. í heild, eins og það er nú.