17.02.1947
Neðri deild: 75. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1876 í B-deild Alþingistíðinda. (3320)

102. mál, ríkisborgararéttur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Ég vil eingöngu út af ummælum hv. 1. þm. Skagf. geta þess, að þótt það sé eðlilegt á venjulegum tímum að miða við þann árafjölda, sem menn hafa dvalið hér, og ef menn hafa verið hér 13–14 ár, þá sé líklegt, að ekkert sé á móti því, að þeir verði gerðir að íslenzkum ríkisborgurum, þá horfir nokkuð öðruvísi við eins og nú standa sakir. Þeir menn, sem hér er um að ræða, áttu þess engan kost öll styrjaldarárin að hverfa héðan, þótt þeir hefðu viljað. Þess vegna er í raun og veru alveg óeðlilegt að telja þau ár með í þessu sambandi. Það er vitað mál, að næstu ár fyrir stríðið komu hingað ýmsir menn, sem ætluðu sér að vera hér skamma hríð, en urðu innlyksa af völdum ófriðarins og hafa eingöngu dvalið hér af þeim sökum. Það er líklegt, að margir þeirra vilji dvelja hér áfram, sérstaklega vegna þess að þeir eiga ekki heimgengt aftur og ekki blæs svo byrlega í þeirra heimalandi. Á það verður að líta, að dvalartíminn er ekki, eins og nú standa sakir, sérstakt vitni þess, að þá fýsi mjög að tengjast böndum við Ísland, heldur geti oft og tíðum verið um bráðabirgðadvöl að ræða. Þess vegna er mjög eðlilegt að halda sér við þær reglur, sem meiri hl. hefur tekið upp og vera enn varfærnari að þessu sinni. Það kann að vera, að með því móti verði einstakir menn sviptir þessum rétti, sem sanngjarnt hefði verið, að þeir hefðu fengið. En þó er á það að líta, að þessir menn njóta nú alls borgaralegs réttar og eru því engu harðrétti beittir, þó að séð yrði til, hvernig fer með dvöl þeirra, eftir að kyrrð hefur komizt á í heiminum á ný. Hitt er vitað og mörgum hv. þm. kunnugt, þar á meðal mér, að sumir þeir menn, sem undanfarin ár hafa sótt á að fá borgararétt, hafa beinlínis gert það í því skyni að öðlast íslenzkan ríkisborgararétt til þess að fá með honum inngöngu í önnur lönd, sem þeir hefðu ekki getað gert með sínum gamla ríkisborgararétti. Þetta er áreiðanlega staðreynd og gefur fullkomlega tilefni til að fara mjög varlega í það nokkra hríð að veita íslenzkan ríkisborgararétt. Það er engin ástæða til að halda, að svo sé um þann mann, sem hv. 1. þm. Skagf. talaði sérstaklega um. En það er ljóst, að ef menn fara að gera upp á milli manna eftir því, hvernig þeirra persónulega þekking er hverju sinni, þá er komið mikið handahóf, sem að ýmsu leyti er varhugavert. Þess vegna finnst mér skynsamlegast að halda sér við þá meginreglu, sem hv. meiri hl. n. hefur byggt till. sínar á. Vil ég því mæla með því, að d. samþykki þær og láti sér það nægja að svo stöddu.