17.02.1947
Neðri deild: 75. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1877 í B-deild Alþingistíðinda. (3322)

102. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. minni hl. (Hermann Guðmundsson) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við ræðu hæstv. ráðh. og þær ítrekanir, sem komu fram hjá hv. frsm. meiri hl. um sérstaka varúð í þessum málum. Þær komu mér ekki ókunnuglega fyrir, og ég vissi um afstöðu hæstv. forsrh., þar sem hann átti sæti í allshn. Hæstv. dómsmrh. kemur mér heldur ókunnuglega fyrir sjónir. Það voru orð hæstv. dómsmrh., sem voru frumástæða þess, að ég stóð upp. Hann gaf óbeint í skyn, að þeir menn, sem hér er um að ræða, sæktu um ríkisborgararétt hér til að geta fengið ríkisborgararétt annars staðar. Ég veit ekki, hvað hæstv. ráðh. á hér við. Mér kæmi betur, að hann vildi, áður en málið gengur lengra, skýra frá, hvort einhverjir þeirra manna, sem ég hef gert till. um, væru að þessu, og þá sanna, að svo væri. Annars kann ég illa við að vera með getsakir, sem eru gerðar til að spilla fyrir, að þeir menn, sem till. er gerð um á þskj. 404, verði samþ., ekki sízt af því, að hæstv. dómsmrh. tók fram um einn af þeim mönnum, sem meiri hl. n. gerir ekki till. um, að vel gæti verið, að ekki væri þannig ástatt um hann. Ég hef talað við alla þá, sem standa á þskj. 404. og hygg, að óhætt sé að fullyrða, að þeir óski að veiða framvegis íslenzkir ríkisborgarar, en ætli ekki að komast til annarra landa og öðlast þar ríkisborgararétt.

Ég hef svo ekki meira um þetta að segja að svo komnu máli. Ég vil aðeins bæta því við að lokum, að mér finnst ekki þörf þessarar sérstöku varfærni, sem hér á að viðhafa. Ég sé ekki, að ástandið í dag réttlæti það. Það má vera, að sumir þessara manna hafi verið hér vegna þess ástands, sem var fyrir stríðið, en ég hygg þó, að allir, sem eru á þskj. 404, ættu að fá íslenzkan ríkisborgararétt, og ég vona, að d. verði við þeirri ósk og samþykki brtt.