17.02.1947
Neðri deild: 75. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (3323)

102. mál, ríkisborgararéttur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Hv. frsm. minni hl. hefur misskilið ummæli mín. Ég sagði aldrei, að menn hefðu reynt að fá ríkisborgararétt hér til að geta síðan fengið ríkisborgararétt annars staðar, heldur til þess, ef þeir færu úr landi, að þeir gætu notað íslenzkan ríkisborgararétt annars staðar og komizt áfram á honum, sem þeir hefðu ekki getað á sínum upphaflega ríkisborgararétti. Þetta er sitt hvað. Annars beindi ég þessu ekki sérstaklega gegn þeim mönnum, sem eru í till. hans, heldur hitt, að sumir þeir, sem að undanförnu hafa sótzt eftir að fá íslenzkan ríkisborgararétt, það er mér persónulega kunnugt, hafa gert það af þessari ástæðu, og hefur það orðið til þess, að mér virðist ástæða til að fara varlega í það almennt að veita þennan rétt og þess vegna sé betra, að upp sé talin slík meginregla, sem hv. meiri hl. allshn. hefur gert, en að velja milli manna af handahófi, eins og mér virðist hv. minni hl. vil ja. Það gæti verið ástæða til að fara þannig að, ef það væri níðzt á þessum mönnum, ef þeim væri gert örðugt fyrir, ef þeir væru ofsóttir eða stæði til að flæma þá úr landi. Ekkert slíkt er hér fyrir hendi. Þeir njóta hér fullkomins borgaralegs réttar og á engan veginn að hrekja þá úr landi eða ofurselja þá neinum ofsóknarmönnum þeirra. Þeir njóta íslenzkrar réttarverndar og gestrisni Íslendinga. Virðist mega við það hlíta, þar til séð verður, hvernig skipast, og tel ég því öruggast að fara eftir þeirri reglu, sem hv. meiri hl. allshn. hefur tekið upp.