27.02.1947
Neðri deild: 82. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (3342)

102. mál, ríkisborgararéttur

Arnfinnur Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að flytja þá brtt. við frv., sem prentuð er á þskj. 459, en hún er um það, að í 1. gr. bætist eftir stafrófsröð Göhlsdorf Elisabeth, tungumálakennari í Reykjavík, f. 3. ágúst 1890 í Þýzkalandi. Hún fluttist hingað til lands 6. apríl 1935 og hefur dvalið hér síðan. Hún var áður alltengd Jóhanni Jónssyni skáldi, og bjuggu þau saman. Þá kynntist hún Íslandi og Íslendingum. Ég tel, þótt ekki væri nema fyrir þeirra samveru, Jóhanns og hennar, þá sé það skylda að verða við beiðni þessarar konu. Þegar Jóhann stundaði nám í Þýzkalandi, veiktist hann og sótti því um styrk til ríkisstj., en var synjað þrátt fyrir meðmæli frá rektor háskólans, sem hann stundaði nám við. Þegar svo Jóhann sýndi rektor synjunarbréfið, sagði hann: „Þó að þjóðin þín hafi ekki ráð á að styrkja þig, þá hefur háskólinn þinn ráð á því“ — og fékk hann styrk frá háskólanum í veikindum þeim, er hann átti við að stríða. Hann náði aldrei heilsu eftir þetta, en vegna hjálpar Göhlsdorf lifði hann sæmilegu lífi til dauðadags. Fyrir þetta tel ég það sjálfsagða viðurkenningu, að þessi kona fái ríkisborgararétt.